148. löggjafarþing — 6. fundur,  21. des. 2017.

almannatryggingar.

51. mál
[12:53]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Það var eitt af stefnumálum Miðflokksins fyrir kosningarnar núna í haust að atvinnutekjur rýrðu ekki lífeyristekjur. Það atriði var sett fram að vel ígrunduðu máli vegna þess að í öldruðum eru fólgin verðmæti sem við megum ekki fara á mis við, þ.e. reynsla þeirra, þekking o.s.frv. Við vildum líka að þetta yrði gert með þessum hætti til þess að gera þeim kleift sem ekki eru þegar á vinnumarkaði en vilja vera á vinnumarkaði í þessum aldurshópi að gera það og auka þar með lífsgæði sín og tekjur. Við skulum ekki gleyma því að það er ekki bara tekjumissir sem er hlutskipti margra aldraðra sem hætta vinnu, heldur einangrast þeir líka félagslega, þeir þróa jafnvel með sér sjúkdóma sem hægt væri að koma í veg fyrir með því að leyfa því fólki að vinna sem til þess er fært og vill gera það. Því ber að fagna þessu frumvarpi sem hér kemur fram af hendi Flokks fólksins.

Miðflokkurinn hefur það nú til athugunar, og mun það koma fram við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins, að í staðinn fyrir að hækka frítekjumark upp í 100.000 kr. verði sú leið valin að atvinnutekjur rýri ekki lífeyristekjur. Við munum boða breytingu í þá veru núna við afgreiðslu fjárlaga. Við teljum að það sé mjög brýnt að fá vilja þingsins fram í því máli núna strax. Við teljum líka að það sé fljótlegri aðferð til þess að koma þessu máli í gegn ef vilji er fyrir því hér á hinu háa Alþingi, sem ég vonast til vegna þess að við hljótum öll að geta verið sammála um að það er allra hagur að þeir sem vilja vinna geti unnið. Það er líka hagur ríkisins vegna þess að alveg eins og hv. ræðumaður sem hér talaði á undan mér sagði hefur komið fram að sá kostnaður sem menn telja að verði af þessari aðgerð, 2,5 milljarðar kr., er stórlega ofmetin tala. Og þegar öllu er á botninn hvolft munu allir hagnast á þeirri aðgerð, þar á meðal ríkissjóður.

Ég skildi það ekki lengi og komið hefur fram hér að í nefnd sem ég veitti forstöðu á sínum tíma fórum við í þessa skerðingu. En þegar maður fær rök sem benda til þess að sú leið hafi ekki verið skynsamleg þá tekur maður rökum og skiptir um skoðun. Þess vegna er það bjargföst sannfæring mín nú að atvinnutekjur eigi ekki að rýra lífeyristekjur eldri borgara. Það á ekki að vera á forræði einhverra stjórnmálamanna að segja fólki að það megi hafa 25.000 kr. á mánuði í laun eða 100.000 kr. án þess að það fari að rýra lífeyristekjur þess. Ég fagna því þessu frumvarpi en bendi á að Miðflokkurinn mun reyna að koma þessu máli fram við 2. umr. eða 3. umr. um fjárlög.