149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

ýmsar aðgerðir í samræmi við forsendur fjárlaga 2019.

2. mál
[14:25]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, það verðskuldar alveg umræðu að ræða um vísitöluviðmið í lögunum. Við erum frjáls að því á hverju ári, eins og birtist ágætlega í þessu frumvarpi, að bæta við. Við bætum einu prósenti við hækkun persónuafsláttarins umfram viðmið neysluverðsvísitölunnar. Og þó að það sé sem betur fer að jafnaði svo að laun hækka umfram verðlag á Íslandi er það ekki ávallt þannig. Þegar þróunin verður á hinn veginn, eins og t.d. átti við hér eftir fall fjármálafyrirtækjanna, er ákveðin vörn í því fólgin að persónuafslátturinn fylgi hinni vísitölunni við kreppuaðstæður.

Það hefur töluvert verið rætt síðastliðið ár, m.a. í kjölfar skýrslu Alþýðusambands Íslands, um þessa þróun yfir lengri tíma, hvort rétt sé að miða persónuafsláttinn við launavísitöluna eða þá eftir atvikum þessi fjárhæðarmörk eins og við höfum gert. Ég held að við þurfum að skoða þá umræðu af yfirvegun og í aðeins víðara ljósi. Ég held t.d., og ætla að halda því fram hér, að það hafi ekki verið slæm þróun að fleiri séu að koma inn í staðgreiðslukerfi tekjuskatts eins og gerst hefur með þeirri launaþróun sem orðið hefur í landinu og með þeirri vísitölutengingu sem við höfum haft á persónuafslættinum. Það eru fleiri að taka þátt í því að standa skil á staðgreiðslusköttum í dag en var fyrir tíu árum. Ég held að það sé jákvæð þróun. Á sama tíma eru allir hópar með meiri ráðstöfunartekjur.

Eitt af því sem ég vil velta upp í þessari umræðu er hvort við ættum að skoða þann valkost að tengja þróun persónuafsláttarins, breytingar á honum frá ári til árs, og jafnvel líka þessi fjárhæðarmörk, við (Forseti hringir.) samsetta tölu úr neysluvísitölu, þ.e. verðbólgu, og þróun framleiðni í landinu, hvort framleiðni plús verðbólga eigi að vera viðmiðið.