149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[16:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, við getum rætt kolefnisgjaldið sérstaklega hér síðar en það er alveg rétt að menn mega ekki gefa sér að áhrifin séu engin eða lítil, það þarf að taka til athugunar hverju sinni. Varðandi það tiltekna gjald er kannski tvennt sem ég held að skipti máli. Það er annars vegar að sú breyting sem við gerum á gjaldinu um næstu áramót upp á 10% er í heildarsamhengi þess hvað bensínlítrinn kostar ekki veruleg. Hún ætti ekki að breyta stöðunni mjög mikið. Hún er samt mikilvæg í öðru samhengi því hún kemur í framhaldi af annarri hækkun og svo er viðbótarhækkun boðuð síðar. Hins vegar er hitt samhengið, byggðalega samhengið, sömuleiðis eitthvað sem þarf að taka til skoðunar. Mér hefur þótt athyglisvert að fram hafa komið í raun og veru mjög ólík sjónarmið um það hvernig slík gjaldtaka hafi áhrif á landsbyggðina annars vegar og höfuðborgarbúa hins vegar eða þá sem búa á höfuðborgarsvæðinu.

Þar vísa ég til þess að lengst af höfum við talið okkur trú um að þeir sem væru búsettir úti á landi aki fleiri kílómetra. Síðan höfum við tiltölulega nýlega fengið vísbendingar um að þessu kunni að vera einmitt öfugt farið. Að almennt sé þvælst meira á bílnum hérna á höfuðborgarsvæðinu en að meðaltali gerist úti á landi. Það er mikilvægt fyrir okkur að grafast betur fyrir um þetta, a.m.k. þannig að við sjáum hvernig þetta er að jafnaði, þótt það verði auðvitað aldrei fullyrt um alla sem í hlut eiga.