149. löggjafarþing — 6. fundur,  18. sept. 2018.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2019.

3. mál
[17:19]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Frú forseti. Þetta frumvarp ber með sér að alltaf skal það vera ríkissjóður sem kyndir undir hækkun vísitölu neysluverðs. Ég vil víkja sérstaklega að kolefnisgjaldinu en þar er um háar fjárhæðir að ræða. Tekjur af gjaldinu eru áætlaðar 5,9 milljarðar á árinu 2019. Hækkun milli ára er 550 milljónir, eins og kom fram hjá hæstv. fjármálaráðherra. Hér er um síhækkandi skattheimtu að ræða á hinn almenna bifreiðaeiganda og ekki síst þá sem búa á landsbyggðinni þar sem notkun rafmagnsbifreiða er mjög takmörkuð. Auk þess má ekki gleyma því að ekki hafa allir efni á því að kaupa sér rafmagnsbifreið og hún hentar ekki öllum. Gjaldið bitnar verst á tekjulægsta hópnum sem hefur ekki efni á því að fá sér nýjan bíl sem losar minna. Hæstv. umhverfisráðherra hefur viðurkennt að erfitt sé að meta árangur af kolefnisgjaldinu.

Hv. þm. Helgi Hrafn Gunnarsson sagði áðan að hann gleddist yfir gjaldinu. Ég spyr: Getum við glaðst yfir gjaldi sem er viðurkennt að erfitt sé að meta árangur af?

Hækkun kolefnisgjaldsins þýðir hækkun vísitölu neysluverðs. Eins og við vitum eru flest lán heimilanna tengd þeirri vísitölu. Í frumvarpinu kemur fram að gjaldið eigi að hækka um 10% á næsta ári og svo aftur um 10% árið 2020. Og er hækkunin sem þegar hefur komið fram ærin. Það sem við þurfum að fá að vita er hver heildarhækkun kolefnisgjaldsins er á heildarútgjöld heimilanna.

Það væri mjög gott ef hæstv. fjármálaráðherra gæti látið meta á hvaða heimilissamsetningu hækkun kolefnisgjaldsins leggst einkum þungt. Þá spyr maður sjálfan sig: Er ekki verið að skattleggja tekjulægsta hópinn sem á öðrum stað í fjármálafrumvarpinu virðist vera ætlað að styðja?

Það er kolefnislosun að moka skurð. Að moka ofan í skurð í votlendi er kolefnisbinding. Eins og ég sagði er líka kolefnislosun að moka skurðinn og ekki er það rafmagnsgrafa sem mokar ofan í skurðinn. Segjum að hæstv. umhverfisráðherra láti moka ofan í skurð. Það geta verið margir rúmmetrar af skurðum. En á sama tíma má kannski gera ráð fyrir að hæstv. samgönguráðherra eða landbúnaðarráðherra láti moka skurði og marga rúmmetra af skurðum. Þá er spurningin þessi: Kann að vera að opnaðir séu fleiri skurðir en lokaðir í kolefnisjöfnunarumhverfisátakinu á Íslandi? Það væri gott að þær upplýsingar lægju fyrir. Ég held að nauðsynlegt sé að þær liggi fyrir. Við fáum prik í París fyrir að moka ofan í skurð og það hljómar vel en við megum ekki gleyma því að nýr skurður þar sem rotnunin er mest og losunin er mest eru líka til staðar.

Þetta er því miður, virðist vera, meira og minna órannsakað. Það vantar alla yfirsýn yfir stöðu þeirra mála. Ég tel að það sé ákveðið aðhaldsleysi í ríkisfjármálunum að setja slíkar upphæðir í þetta án þess að vita fyllilega árangurinn og hvort hreinlega sé verið að vinna á móti þeim aðgerðum um leið. Svo ofan á allt þetta er ljóst að kolefnisgjaldið er á vissum sviðum lagt vitlaust á. Samkvæmt fréttum frá Umhverfisstofnun er brennsla brennisteinsríkrar svartolíu langódýrust og í álagningu kolefnisgjalds er þess ekki gætt að mengunarmesta eldsneytið reynist það hagkvæmasta við Íslandsstrendur. Það hefur t.d. komið fram að ný fiskiskip í íslenska fiskiskipaflotanum nota svartolíu. Um það hefur lítið verið rætt, en hins vegar er mikilvægt í augum stjórnvalda að bifreiðaeigendur skuli borga þegar bíllinn er settur í gang.

Frú forseti. Kolefnisjöfnunarmálin eru því miður meira eða minna órannsökuð. Meðan svo er er ekki gott að skattleggja almenning á þennan hátt. Það vantar alla yfirsýn yfir stöðu mála, eins og ég nefndi, og í ljósi þessa tel ég gjaldið vera allt of hátt.