150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[14:59]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta frumvarp en vil engu að síður varpa ljósi á nokkur atriði sem ég held að við ættum aðeins að huga að. Í fyrsta lagi held ég að þetta varpi áhugaverðu ljósi á samspil skatta og þjónustugjalda, hvernig við fjármögnum þau útgjöld sem við erum tilbúin að ráðast í. Við í Samfylkingunni höfum frekar talað fyrir því að fjármagna hið opinbera með skatttekjum fyrst og fremst og hafa þjónustugjöld, sjúklingagjöld, innritunargjöld o.s.frv. í lágmarki, en að sjálfsögðu þurfa þau engu að síður að vera til staðar. Mörg þessara gjalda eru fullkomlega eðlileg að mínu mati, og ég ætla ekki að amast við einstökum gjöldum í þessari ræðu. En almennt séð, og ég held að ég komi frekar inn á það þegar við ræðum frumvarpið sem lýtur að breytingum á skattkerfinu, held ég að við þurfum að vera miklu róttækari þegar kemur að því hvernig við byggjum upp skattkerfið, hverjir eigi að bera skattbyrðina uppi og með hvaða hætti. Við í Samfylkingunni, og það ætti ekki að koma neinum á óvart, höfum ófeimin kallað eftir hærri fjármagnstekjuskatti, hærri auðlindagjöldum, hærri mengunarsköttum; þetta eru allt tekjuleiðir sem við ættum frekar að ráðast í en að láta millistéttina eða lægri stéttina bera uppi kostnað ríkisins, hvort sem það er í gegnum þá skatta sem þessar stéttir greiða eða í gegnum einstök krónutölugjöld sem þær greiða fyrir viðkomandi þjónustu.

Ég vil líka nefna sérstaklega í upphafi að þótt við séum að tala um tekjuhliðina þurfum við að vera á varðbergi þegar kemur að útgjöldum ríkissjóðs. Mig langar bara segja það úr þessum ræðustól að við í fjárlaganefnd höfum fengið uppfært áhættumat sem lýtur að útgjöldum ársins í ár, 2019. Í upphafi árs var gert ráð fyrir 9 milljarða áhættumati, að gjöldin væru umfram það sem var búið að ákveða í fjárlögum. Nú er búið að uppfæra þetta áhættumat. Það versnaði um 22 milljarða þannig að á þessu ári er gert ráð fyrir 31 milljarði umfram fjárveitingar og til að fjármagna það þarf ríkissjóður að sjálfsögðu að afla tekna. Það er m.a. gert í frumvarpinu.

Ég sit í fjárlaganefnd, ekki í efnahags- og viðskiptanefnd, en ég vil samt sem áður hvetja efnahags- og viðskiptanefnd, sem fær þessi frumvörp til umfjöllunar, til að skoða þessi gjöld heildstætt. Mér skilst á nefndarmönnum að hugsanlega standi til að skoða krónutöluhækkanirnar, í hvað þær fari og hvernig þær hafi skilað sér í bættri þjónustu. Að sjálfsögðu snýst þetta allt um að bæta þjónustuna. Það er ekkert markmið í sjálfu sér að auka álögur á borgarana eða fyrirtækin. Tilgangurinn hlýtur að vera að bæta hina opinberu þjónustu. Það er það sem skiptir máli og ég held að vinstri menn og hægri menn geti alveg verið sameinaðir í því. Það er þjónustan sem skiptir máli, ekki endilega krónutalan sem fer í viðkomandi verkefni. En að því sögðu þá kemur það engum á óvart að einhver hluti hins opinbera búi við talsverðan fjárskort sem og stór verkefni, ekki síst á sviði velferðarmála. Við fengum nýlega kynningu í fjárlaganefnd og að öllu óbreyttu stefnir rekstur Landspítalans í 4 milljarða kr. halla á þessu ári og stundum er þessi halli mjög fyrirsjáanlegur. Við erum að samþykkja fjárlög eða bandorm, eins og í þessu tilviki, sem við vitum að dugir ekki til að mæta þeim kröfum sem við leggjum á viðkomandi stofnun. Við þurfum líka að vera mjög raunsæ í áætlanagerð og ég held að við getum verið alveg samferða hvað það varðar.

Það eru þrír hlutir sem ég ætla að nefna hér sérstaklega. Hér er aðeins verið að bæta í vaxtabæturnar en í raun er þetta samt svipuð krónutala og verið hefur. Ég vil minna á að vaxtabótakerfið er nánast horfið á Íslandi. Ég held að gert sé ráð fyrir 3,4 milljörðum í það og við sjáum að um helmingur af þeim sem naut vaxtabóta hér á árum áður er dottinn úr því kerfi. Ég held að ég og hæstv. fjármálaráðherra deilum ekki sömu hugmyndafræði þegar kemur að vaxtabótunum. Ég held að vaxtabætur séu mjög nauðsynlegt tæki í okkar velferðarkerfi, til að mæta þeim kostnaði sem tekjulágar fjölskyldur verða fyrir þegar kemur að því að fjármagna sitt húsnæði. En þegar helmingurinn er einfaldlega dottinn út úr kerfinu, út af því að skerðingarnar eru með þeim hætti, er kerfið gallað að mínu mati. Við þurfum að vera miklu myndarlegri í því að tryggja eðlilegt fjármagn til vaxtabóta. Þegar Samfylkingin var síðast í ríkisstjórn lagði hún mikla áherslu á vaxtabætur og barnabætur og á því kjörtímabili sem Samfylkingin var við stjórnvölinn setti hún samanlagt í barna- og vaxtabætur 100 milljarða kr., talsvert meira en þessi ríkisstjórn er að gera þegar litið er til barna- og vaxtabóta. Við höfum niðurbrot á þessu og ef við skoðum hverjir nutu þess helst þá voru það tekjulágar fjölskyldur. Vaxtabætur tekjulægstu fjölskyldnanna náðu að dekka um helming af þeim húsnæðiskostnaði sem þessi hópur varð fyrir. Fyrir tekjulága skipta vaxtabætur talsverðu máli.

Í annan stað er hér hefðbundið ákvæði um að hluti af Framkvæmdasjóði aldraðra geti farið í rekstur. Hugmyndin með Framkvæmdasjóði aldraðra, sem er nefskattur, var að fara í uppbyggingu á hjúkrunarheimilum, þetta átti ekki að fara í rekstur. Þetta er svo sem engin ný pólitík. Allar ríkisstjórnir sem ég hef fylgst með undanfarin ár hafa stundað þetta, að taka þá fjármuni, a.m.k. hluta af þeim, sem eiga að renna í Framkvæmdasjóð aldraðra og setja í rekstur. Ég held að við þurfum aðeins að staldra við; ég veit ekki hvenær rétti tíminn er hvað það varðar að stuðla að því að Framkvæmdasjóður aldraðra fari í það sem hann var hugsaður í, sem er í nýframkvæmdir á vegum aldraðra og viðhald.

Hér var aðeins komið inn á mengunarskatta og græna skatta og ég held að við eigum að beita þeim í æ meira mæli. Mengun er of ódýr hér á landi. Ég trúi að hagrænir hvatar hafi áhrif, að þeir hafi áhrif á hegðun okkar og hegðun fyrirtækja. Mengunarskattar eru með hagkvæmustu sköttum, ef svo má segja. Skattar eru almennt séð ekki hagkvæmir en mengunarskattar eru hagkvæmir því að þeim tekst að ná yfir þann kostnað sem til fellur í samfélaginu gagnvart þeim aðila sem veldur þeim kostnaði. Ef mengun er einfaldlega of ódýr lendir kostnaðurinn á þriðja aðila. Ég styð heils hugar allar góðar hugmyndir, sem lúta að því að hækka mengunarskatta, græna skatta, og við eigum að skoða þetta í æ meira mæli, að skattleggja þá sem menga því að þeir valda kostnaði. Þá náum við tekjum til að mæta þeim kostnaði sem þeir valda en við náum líka breyttri hegðun. Þetta er það sem við þurfum að huga að í meira mæli en nú er gert. Þetta er auðvitað stóra málið í dag þegar kemur að hamfarahlýnun. Við þurfum ekki bara að fá fólkið í landinu og í heiminum til að haga sér öðruvísi, við þurfum að fá fyrirtækin með í þann leiðangur. Það eru ekki síst fyrirtækin sem menga og það er lykilatriði að stórfyrirtæki, hvaða fyrirtæki sem er, taki þátt í þeirri baráttu að koma í veg fyrir hamfarahlýnun. Spurningarnar, verkefnin og áskoranirnar verða vart stærri en við blasir hvað hana varðar.

Að lokum langar mig aðeins að minnast á það sem ég nefndi í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra varðandi afnám krónu á móti krónu skerðingar, það er hluti af því frumvarpi sem hér er til umræðu. Þá er verið að tala um þetta samspil örorkugreiðslna, almannatrygginga og lífeyrissjóða. Allir í þessum sal hafa margoft sagt að þeir vilji afnema þá skerðingu og ég þekki alveg söguna, af hverju hún var sett á fót o.s.frv., ég er ekkert að draga fjöður yfir hana. En ég held að það sé löngu tímabært að við stígum þetta skref en það kostar peninga. Það eru um 21.000 öryrkjar í landinu og við höfum bein áhrif á þeirra kjör. Mér finnst það óásættanlegt þegar helmingur öryrkja er með tekjur undir 270.000 kr. fyrir skatt. Helmingur öryrkja hefur minna en 270.000. Þetta er ekki boðleg tala, ég veit að við erum öll sammála um það. Ef við lítum á 70% öryrkja eru þeir með tekjur undir 300.000 kr. Þetta er hópur sem á í mörgum tilfellum ekki kost á því að afla sér frekari tekna og er upp á náð og miskunn ákvarðana sem eru teknar í þessum sal þegar kemur að kjörum. Eitt af því sem þessi hópur hefur lagt svo mikla áherslu á er að stíga það skref að afnema krónu á móti krónu skerðingu. En það kostar 10–12 milljarða og hægt er að ná í þá fjármuni þegar um er að ræða 1.000 milljarða kr. fjárlagafrumvarp, tekjuleiðirnar eru svo sannarlega fyrir hendi.

Hér er hæstv. ráðherra að fara í ýmsar skattalækkanir, t.d. á bankaskatti. Að afnema bankaskattinn kostar um 8 milljarða á ári þegar það er komið til framkvæmda. Það er pólitískur vilji stjórnarinnar að hafa lægsta fjármagnstekjuskatt á öllum Norðurlöndunum. Við sjáum að veiðileyfagjöldin hafa lækkað um 40%, úr 11,2 milljörðum í 7 milljarða, síðan þessi ríkisstjórn tók við þannig að það er ekkert óábyrgt að segja að við getum svo sannarlega fjármagnað afnám krónu á móti krónu skerðingar. Ég tek undir það sem hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan að það þarf að fara að ljúka heildarendurskoðun og hætta að styðjast við þessi svokölluðu bráðabirgðaákvæði og stíga þetta skref. Nú er kjörtímabilið hálfnað og ég held að þetta sé hópur sem er einfaldlega búinn að bíða of lengi. En þessa fjármuni er ekki að sjá, hvorki í bandorminum, fjárlagafrumvarpinu né í fjármálaáætluninni. Ég vil bara brýna hæstv. ráðherra, sem ég veit að er með veskið í þessari ríkisstjórn, til að tryggja að við náum að klára þetta skref áður en kjörtímabilinu lýkur.