150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2020.

2. mál
[16:07]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Við erum að tala um frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum vegna fjárlaga. Það er aðallega verið að tala um hækkun gjalda. Eiginlega er sorglegast þegar verið er að skella á öllum þessum gjöldum — ég reyndi að telja alla liði sem verið er að hækka en gafst upp, þeir segja að þetta sé bara samkvæmt vísitölu, 2,5% að meðaltali — að hvergi kemur fram hvernig þetta skiptist niður á lágtekjufólk og hátekjufólk. Í þeirri umræðu sem ég átti áðan, í andsvörum við hæstv. fjármálaráðherra, benti hann á að spurningin um skatta væri um það t.d. að geta keypt bjór. Við skulum bara segja það, tökum kippu af bjór inn í dæmið; hækkunin á henni bitnar miklu meira á atvinnulausum og láglaunafólki en á hálaunafólki.

Væri það ekki sanngjarnt ef gjöld á þá sem brjóta lög, t.d. umferðarlög, sem við getum tekið sem dæmi, væru tekjutengd? Finnar tekjutengja slík gjöld. Væri það ekki sanngjarnt að ef tveir aðilar brjóta lög, nákvæmlega sömu lögin, þurfi þeir að borga nákvæmlega sömu prósentutölu af innkomu sinni í sekt? Þannig eigum við að hugsa dæmið andstætt því sem er hugsunin í frumvörpum og hækkunum sem hér um ræðir þar sem alltaf er verið að skerða þá sem síst skyldi.

Í þessu frumvarpi er t.d. verið að hækka gjöld á bensín og olíu. Þar kemur líka inn í nokkuð sem mun hafa gífurleg áhrif nú strax, hækkun á heimsmarkaðsverði á bensíni. Sú hækkun getur ein og sér útrýmt allri þeirri skattalækkun sem fram undan á að vera og gott betur en það. Hvernig ætlar þá ríkisstjórnin að bæta upp þeim sem verst standa þær hækkanir? Og við tókumst líka á hér áðan í andsvörum um frítekjumark. Þar kemur allt í einu inn einn liður sem einhvern veginn fær ekki að vera með í þessari vísitölu. Mig setur algjörlega hljóðan við það. Þarna er verið, eins og ég sagði, að taka 2.500 kr. á mánuði af þeim öryrkjum sem eru að reyna að vinna. Ef við setjum það í samhengi við skattahækkanir, og ég mun gera það hér á eftir í umræðunni, segir það mér að í þessu tilfelli erum við að tala um einhverja hæstu skatta og skerðingar sem til eru í okkar kerfi vegna þess að þeir sem fara fram yfir 109.600 kr. í frítekjumark eiga að borga nær 80% af tekjum sínum í skatt. Og það sem er kannski furðulegast í þessu samhengi er að það er stór hópur þarna úti sem getur ekki nýtt sér þetta á nokkurn hátt vegna þess að lífeyrissjóðstekjur éta upp frítekjumörk. Síðan reyna þeir að fara að vinna og lenda strax í þessum 80% skatti og jafnvel hærri vegna þess að þetta getur haft áhrif á fleiri liði. Það er eiginlega með ólíkindum að við skulum búa til svona kerfi.

Svo eigum við líka að spyrja um hækkun til Ríkisútvarpsins. Þarna eru 2,5%. Það má hækka þangað en það má ekki hækka frítekjumark öryrkja. Það ættu auðvitað allir sem eru á lægstu launum og bótum að vera undanskildir því að borga þessar 17.500 kr. til Ríkisútvarpsins sem verða 17.900 kr. Síðan er annað í þessu sem eru nýju gjöldin, græni skatturinn í sambandi við urðun sorps og við getum líka talað um gróðurhúsalofttegundir. Það er verið að tala um mengun bíla. Hverjir eru á þeim bílum sem menga mest? Það eru þeir sem hafa það verst og keyra á elstu bílunum, hreinlega druslum. Það er fáránlegt að þeim verði refsað mest sem hafa ekki efni á að skipta yfir í hagkvæmari bíla, hvað þá að kaupa sér rafmagnsbíla. Og það er sem ég segi, það er alltaf verið að refsa í öfuga átt. Það væri nær að þeir sem hafa efni á því borguðu meira.

Ég ætla ekki að hafa þetta öllu lengra um þessi mál. En eins og ég segi hlýtur það að vera lágmarkskrafa þegar verið er að setja svona gjöld á — og það í svo mörgum og nýviðbættum liðum — að það sé reiknað út hvað þetta er í krónutölu fyrir þá sem eru á lægstu lífeyrislaunum og lágmarkslaunum vegna þess að það er það sem skiptir máli. Ef hægt er að reikna út hagkvæmnina af skattbreytingunum á að vera hægt að reikna út nákvæmlega hvað verið er að leggja á þarna á móti í sköttum. Ég held að ástæðan liggi í því að þeir vilja ekki reikna þetta út vegna þess að þá myndu þeir verða að sýna fram á að hinar svokölluðu skattalækkanir munu ekki skila sér til þeirra sem þurfa mest á þeim að halda heldur er verið að skattleggja þá. Þar af leiðandi mun allur hagnaður og öll hagkvæmni eingöngu renna í vasa þeirra sem eru á hæstum launum.