150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

tekjuskattur og staðgreiðsla opinberra gjalda.

3. mál
[16:55]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi frítekjumarkið þá hækkuðum við það fyrir tveimur árum og má segja að hærra frítekjumark sé leiðin sem við höfum farið á móti hækkun prósentunnar. Ég er ekki alveg tilbúinn til að gleypa það óskoðað að fjármagnstekjuskattur sé miklu lægri á Íslandi en á Norðurlöndunum vegna þess að jafnvel þótt prósentan þar standi ofar en hér á landi eru undanþágurnar endalausar. Það eru heildaráhrifin af fjármagnstekjuskattlagningunni sem maður þarf að meta til að átta sig á því hvorum megin skattbyrðin er meiri.

Við erum ekki fallin frá þessari endurskoðun. Ég tel algerlega útilokað að viðhalda skattlagningu sem t.d. tekur af mönnum alla raunávöxtun. Við sjáum bara fyrirbæri eins og Styrktarsjóð Háskóla Íslands. Á tímum verðbólgu og lágrar ávöxtunar (Forseti hringir.) leiðir skatturinn til þess að sjóðurinn hefur úr minnu að spila í lok árs en hefði verið án skattsins.