150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[17:59]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Þetta er endurflutt frumvarp, það var lagt fram á 149. löggjafarþingi en hefur reyndar tekið nokkrum breytingum. Ég verð sérstaklega að vekja athygli á gildistökunni, sem er reyndar breytingin sem ég er að vísa til.

Á 149. löggjafarþingi var þetta 826. mál á þskj. 1317, og gekk til efnahags- og viðskiptanefndar eftir 1. umr. Síðan náðist ekki að ljúka meðferð málsins. Með þessu frumvarpi er ætlunin að festa í lög ákvæði sem eru samhljóða fyrirætlunum stjórnvalda sem koma fram í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar 2020–2024. Það er í samræmi við breytingar þingsins á fjármálaáætluninni í júní sl. en þá var gert ráð fyrir að seinka áformum um lækkun skatthlutfallsins um eitt ár.

Frumvarpið hefur að geyma tillögu að breytingum á áðurnefndum lögum er varða lækkun á gjaldhlutfalli í fjórum þrepum á árunum 2021–2024. Verði ákvæði frumvarpsins að lögum mun endurskoðunin skila sér í lægra gjaldhlutfalli þannig að það verði framvegis 0,145% frá árinu 2024 en gjaldhlutfallið stendur í dag í 0,376%.

Breytingarnar sem lagðar eru til í frumvarpinu munu lækka skatttekjur ríkissjóðs frá því sem ella hefði orðið á árunum 2021–2024 um 1,7 milljarða kr. á árinu 2021 og allt upp í 8 milljarða kr. á tekjuárinu 2024. Fyrir gjaldskylda aðila þýðir þetta lægri skattbyrði og minni rekstrarkostnað. Einnig aukast líkur á lækkun kostnaðar fyrir viðskiptavini gjaldskyldra aðila í formi lægri vaxta á útlánum og hærri vaxta á innlánum.

Með frumvarpinu er komið til móts við gagnrýni hagsmunaaðila en jafnframt ábendingar hvítbókar um framtíðarsýn fyrir fjármálakerfið þar sem lögð er áhersla á að lækkun sértækra skatta á fjármálakerfið sé skýrasta tækifæri ríkisins til að draga úr vaxtamun. Því er lagt til að skattalækkunin verði lögfest, jafnvel þótt hún taki gildi í fjórum skrefum á árunum 2021–2024.

Ég vil taka fram að ég held að það sé mjög skynsamleg ráðstöfun að hafa fyrirsjáanleika í þessum efnum, að það sé stundum góð ráðstöfun að lögfesta breytingar, jafnvel þótt þær taki gildi í áföngum þannig að þá liggi fyrir hver löggjafarviljinn er. Það er mjög mikill munur á því að hafa svona þætti í fjármálaáætlun eða koma hreinlega fram með lagafrumvarp og lögfesta það. Ég verð á sama tíma að segja að það er eins konar varnaðarráðstöfun hjá okkur að fresta gildistökunni miðað við það sem áður stóð til. Það er vegna þess að við urðum fyrir ófyrirséðum áföllum á þessu ári í efnahagslífinu og þurftum að gera ráðstafanir. Þetta eru ráðstafanir sem fylgja því. Það hefði alveg mátt velta fyrir sér í þessu máli hvort við hefðum átt að byrja hægar en enda á sama stað og áður var lagt upp með. Hér er sem sagt öllum lækkunum sem komu í skrefum frestað um eitt ár miðað við það sem áður var fjallað um.

Það kemur mjög skýrt fram í hvítbókinni að þessi skattur er séríslenskur. Hann mun leggjast mun þyngra á fjármálafyrirtækin á Íslandi en skattar á fjármálafyrirtæki gera almennt annars staðar. Góð tafla í hvítbókinni dregur fram áhrifin á vaxtamun fjármálafyrirtækjanna þannig að hér er vissulega um mál að ræða sem hefur skapað ríkissjóði miklar tekjur, en ég verð að minna á að þær miklu hækkanir sem við gerðum á þessum skatthlutföllum voru ávallt hugsaðar sem tímabundin ráðstöfun og það er eðlilegt að við færum okkur aftur til þess, nú þegar uppgjör slitabúanna er afstaðið og efnahagsreikningur bankanna að verða heilbrigðari, vanskil allt önnur en áður var, búið að endurmeta eignahliðina og bankarnir komnir í hefðbundnari rekstur, að við komum þá öðrum þáttum rekstrarins eins og skattumhverfinu í eðlilegt horf að nýju.

Ég trúi því að það geti skilað sér í betri kjörum fyrir viðskiptamenn bankans. Við verðum að trúa því að við getum með bankaumhverfinu á Íslandi skapað þó það mikla samkeppni að það skipti máli að treysta rekstrarumhverfið, að því verði ekki öllu stungið í vasa eigendanna, en eigandinn að tveimur þriðju bankakerfisins, þá er ég að vísa í þessa þrjá kerfislega mikilvægu banka, er einmitt íslenska ríkið. Á þessu kjörtímabili hefur verið lagt upp með það að reyna að draga úr eignarhaldi ríkisins á fjármálafyrirtækjum og í mínum huga er enginn vafi að það getur haft áhrif á virði eignarhluta ríkisins að skýra línur í þessu efni.

Ég ætla ekki að hafa þessi orð fleiri. Við höfum áður skipst á skoðunum um þetta mál og gerum það eflaust áfram á þessu þingi. Ég legg til, virðulegi forseti, að málinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. þegar þessari lýkur.