150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[18:18]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er í sjálfu sér spurning hvort við getum verið sammála um þau lögmál sem eiga að vera að takast á eða þá krafta sem eiga að vera að takast á. Ég veit að það er fákeppni á Íslandi en það getur verið virk samkeppni á fákeppnismarkaði og ef við getum yfir höfuð skapað einhverja samkeppni á þessum markaði á það að skila sér til neytenda í landinu að draga úr opinberum álögum. Getum við fengið einhverja tryggingu fyrir því? Nei, við getum ekki fengið tryggingu fyrir því, en það er spurning hvort við trúum því. Ef við trúum því ekki að lægri álögur geti haft áhrif á verðlagningu í fjármálakerfinu, sem vaxtaálagið er, þetta er ákveðin leið til að verðleggja vöru, er hægt að hefja umræðu um það hversu mikið við getum lagt á fjármálafyrirtækin án þess að það komi fram í kjörum þeirra. Þá fyndist mér við vera komin út í mjög undarlega umræðu vegna þess að ég hef enga trú á því að önnur lögmál gildi í fjármálastarfsemi en annars staðar. Ef samkeppni er til staðar á það að birtast í verðlagningu vörunnar eða þjónustunnar, í verði sem endurspeglar kostnaðinn við að veita þjónustuna og við erum farin að velta fyrir okkur almennum markaðslögmálum. Ég vísa síðan aftur til hvítbókarinnar um þetta sem dregur fram hversu mjög þessi skattur stingur í stúf við skattlagningu annarra landa.