150. löggjafarþing — 6. fundur,  17. sept. 2019.

sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki.

4. mál
[18:20]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svarið þó að ekki hafi komið mikið fram um að það er bara rennt blint í sjóinn með að við getum treyst því að bankarnir lækki þessi gjöld ef bankaskatturinn lækkar. Ég minni á að traust almennings gagnvart bankastofnunum er mjög lítið, skiljanlega, eftir það sem á undan er gengið. En það má heldur ekki gleyma því, hæstv. ráðherra, í þessari umræðu að nú er starfsumhverfi bankanna, þ.e. bankaþjónusta, að breytast mjög hratt. Starfsmönnum er að fækka og kostnaður innan bankakerfisins, rekstrarkostnaður bankanna, er að því leytinu til að minnka. Það er að koma ný tækni og við sjáum það nú þegar í dag þegar við förum í viðskiptabanka að starfsmenn eru færri og þetta eru orðnir meira hraðbankar þannig að þar er liður sem hefur lækkað kostnað bankanna. En þetta snýst bara um að þessi aðgerð skili sér til neytenda. Það er það sem er aðalatriði í málinu og það finnst mér vera óljóst. Þar finnst mér ríkisstjórnin vera að horfa til þess að vonandi komi þeir til með að lækka þessi gjöld. Ég er ekki sannfærður um að svo verði. Hvað ætlar ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra að gera eftir tvö, þrjú ár þegar hann sér að hann er búinn að lækka skattana á þessi fyrirtæki en gjöldin á almenning hafa ekkert lækkað? Er þá ekki alveg ljóst að grundvallarforsendan á bak við þessa aðgerð stóðst ekki? Ég hefði viljað sjá, herra forseti, að þetta yrði gert þannig að það yrði einhvers konar skilyrði fyrir því sem væri hægt að setja, einhvers konar endurskoðunarákvæði um að ef sýnt þyki að engar lækkanir verði á almenning í þessu landi við þá aðgerð (Forseti hringir.) verði henni seinkað eða að hún komi ekki til framkvæmda.