151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

útgjöld til heilbrigðismála.

[10:59]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svarið. Það er gott að hann áttar sig á hluta vandans sem er fráflæðisvandi, sem er líka í boði hæstv. ríkisstjórnar. Það er þannig. Af hverju? Jú, vegna þess að ríkisstjórnin tímir ekki að setja nægilegt fjármagn til hjúkrunarheimilanna sem sveitarfélögin eru eitt af öðru að skila til baka til ríkisins. Daggjöldin, sem eru skömmtuð af hæstv. ríkisstjórn með hverjum heimilismanni inn á hjúkrunarheimilin, standa engan veginn undir þeirri þjónustu sem þar er veitt, og á því ber hæstv. fjármálaráðherra ábyrgð. Það er einfaldlega þannig. Þetta er ekkert sjálfstætt verkefni úti í bæ. Þetta er á ábyrgð hæstv. ríkisstjórnar. Mönnunarvandinn er til staðar, ekki vegna þess að hann er úti um allan heim því að hjúkrunarfræðingar sem hafa menntað sig eru margir hverjir atvinnulausir í dag. Ef hæstv. ríkisstjórn væri reiðubúin til að setja meira fjármagn inn í þetta kerfi væri hægt að fjölga (Forseti hringir.) hjúkrunarfræðingum á heilbrigðisstofnunum um allt land. Það er þetta sem hæstv. fjármálaráðherra þarf að átta sig á. Hann er með völdin. Hann þarf að bera ábyrgð á þessu.