151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

tekjuskattur.

3. mál
[11:17]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Það er svo sem alveg rétt og er líka vel þekkt að hver króna sem fer í skatteftirlit, einkum með stórfyrirtækjum og auðmönnum, skilar yfirleitt töluvert miklu til baka á meðan til að mynda eftirlit með bótasvikum skilar nánast aldrei neinu. Ekki að það þurfi ekki að sinna því líka, en auðvitað þurfum við að horfa á réttu staðina. Það er líka rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta skekkir markaði. Þetta er markaðsmisnotkun þegar þetta fer fram. Þannig að maður veltir því fyrir sér, eins og ég spurði í fyrri spurningu, en heyrði ekki almennilegt svar við því, hvort ekki sé hægt að taka á þessu með heildstæðari hætti frekar en að vera alltaf með þessar smábreytingar. Þetta eru vissulega fínar breytingar, gott mál, en við þekkjum umfang vandans, við vitum hvernig þetta virkar. Eru ekki til betri leiðir til að taka á þessu, mögulega með þeim kostnaði að það sé íþyngjandi í einhverjum tilfellum fyrir einhver fyrirtæki? Það má kannski leita að einhverri leið þar sem tilgangurinn helgar meðalið þó svo að við verðum auðvitað að passa okkur að ganga ekki of langt.

Hitt sem mætti líka spyrja út í er að við höfum núna gríðarlega innsýn inn í allt frá bankamillifærslum, kreditkortafærslum o.s.frv., bara hagkerfið í heild niður á hverja færslu fyrir sig. Áður fyrr þótti óraunhæft að ná yfir þetta allt saman, bara vegna þess að það þurfti að handreikna þetta allt. Nú höfum við tölvur sem geta greint frávik með töluvert einföldum hætti. Eigum við ekki að nýta tæknina töluvert betur í skatteftirliti og einkum í alþjóðasamvinnu um þetta?