151. löggjafarþing — 6. fundur,  8. okt. 2020.

tekjuskattur.

3. mál
[11:19]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir það að vel fjármagnað skatteftirlit skiptir verulega miklu máli. Þar koma ekki bara inn sjónarmið um skattheimtur heldur líka það að allir spili eftir sömu reglum. Ég held hins vegar að það séu einhver efri mörk í því að menn haldi áfram að fá krónulegan ávinning fyrir hverja nýja krónu sem þeir setja í skatteftirlit. En við reynum að hlusta eftir ákalli þeirra sem sinna þessari vinnu frá einum tíma til annars og teljum okkur hafa mætt fjárþörfinni á undanförnum árum.

Ég held hins vegar að út af því sem hv. þingmaður segir um bótasvikin að þar gildi bara í raun og veru nákvæmlega sömu lögmál. Við verðum að uppræta bótasvik, ekki bara til þess að takmarka útgreiðslu bóta þar sem þær eiga ekki rétt á sér, ekki bara til þess að takmarka áhrifin á ríkissjóð, heldur til þess að það liggi bara fyrir hjá hinum almenna skattgreiðanda að kerfið sé ekki að greiða bætur til þeirra sem eiga ekki rétt á þeim. Það grefur undan samstöðu í skattamálum og samstöðu almennt í þjóðfélaginu ef við myndum láta það viðgangast, vitandi af bótasvikum t.d. í almannatryggingakerfinu, að gera bara ekkert í því vegna þess að það myndi á endanum skila litlu til ríkissjóðs. Þessu er ég algjörlega ósammála.

Spurt er almennt hvort við gætum gert meira til að uppræta skattsvik sem tengjast alþjóðaviðskiptum og milliverðlagningu. Ég ætla að halda því fram að við höfum gert mjög mikið og séum að ná vel utan um málaflokkinn og hérna sé þörf á litlu, einföldu viðbótarskrefi. Ég sé ekki fyrir mér neinar frekari grundvallarbreytingar í þessum málaflokki.