152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

leiðrétting á kjörum öryrkja.

[13:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Hæstv. forsætisráðherra talaði um það í stefnuræðu sinni að bæta þyrfti kjör öryrkja og hæstv. félagsmálaráðherra og samflokksmaður hans tók einnig í sama streng. Við lestur fjárlagafrumvarpsins sést þó að það eina handfasta sem ríkisstjórnin hyggst gera er að hækka grunnbætur öryrkja um 1% umfram árlega og lögbundna hækkun upp á 4,6%. Á sama tíma hefur launavísitalan hækkað um 7,6% á árinu. Sé auk þess tekið tillit til verðbólgu batna kjörin sem sagt ekkert og enginn raunverulegur vilji birtist hjá ríkisstjórninni til að jafna þennan órétt. Það er erfitt að sjá að ríkisstjórnin hafi einhverja afsökun í málinu. Afkoma ríkissjóðs varð 120 milljörðum betri á þessu ári en óttast var en í fjárlagafrumvarpinu sést að aðeins 1,3 milljarðar eru veittir til almennings aukalega umfram það lögbundna þrátt fyrir þennan afkomubata. Ég vil því spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort hún sé ekki sammála mér um það að þessi aukning geri lítið til að bæta kjör þessara tekjulágu hópa og geri ekkert til að draga úr tekjugliðnuninni.