152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

afglæpavæðing neysluskammta.

[13:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Willum Þór Þórsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Halldóru Mogensen fyrirspurnina. Það er rétt að þetta mál var lagt fram á síðasta þingi, af fyrrverandi hæstv. heilbrigðisráðherra Svandísi Svavarsdóttur. Mig langar aðeins að byrja á forsögunni. Af því að hv. þingmaður spyr hvort ég muni beita mér fyrir því að farið verði í þá vinnu að afla stuðnings þá held ég að það skipti afar miklu máli að samstaða sé um að áform um hverju þetta á að skila gangi upp, að það sé samstaða þeirra hópa sem starfa á vettvangi um að þetta leiði til þess ávinnings sem leitast er eftir.

Hægt er að rekja viðhorfsbreytingu í þessum málaflokki alveg áratug aftur eða lengra. Hæstv. heilbrigðisráðherra lagði fram þingsályktunartillögu 2014, ef ég man rétt, eða skipaði alla vega starfshóp. Svo lagði hv. þm. Halldóra Mogensen ítrekað fram mál þess efnis. Þetta er sambærilegt við málið sem hæstv. ráðherra lagði hér fram og ég mun leggja fram að nýju. Það dregur mjög vel fram — og allar umsagnir, það komu mjög margar umsagnir um málið frá hinum ýmsu aðilum.

Ég er svolítið staddur þar að afla málinu stuðnings og samstöðu um að það skili þeim árangri sem ætlast er til, þ.e. að draga úr skaðavaldandi áhrifum af þessum hræðilega fíknisjúkdómi. Það er lykilatriði. Þetta kjarnast svolítið um það hvað neysluskammtur er. Þá verðum við að ræða við lögregluyfirvöld, meðferðarfulltrúa og fleiri aðila í þeim efnum og horfa til lýðheilsu, forvarna (Forseti hringir.) og stefnumótunar almennt.