152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing og orkuöflun.

[13:21]
Horfa

umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni bæði fyrir fyrirspurnina og hamingjuóskirnar. Sú atburðalýsing sem hv. þingmaður lýsir hér eru fréttir fyrir mig. Ég er nú ekki búinn að vera lengi í embætti og er að reyna að setja mig inn í flest þau mál sem þar eru inni á eins skömmum tíma og hægt er, fyrir utan að gera ýmsar ráðstafanir. Mér hafði borist til eyrna eitthvað varðandi friðlýsingarnar en ekki þær áhyggjur sem hv. þingmaður vísar hér til, það er eitthvað sem mér hefur ekki borist til eyrna. Sannast sagna er þetta bara eitt af þeim fjölmörgu málum sem ég hef ekki náð, á þeim tíma sem ég hef verið umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, að setja mig inn í. Þess vegna ætla ég, eðli máls samkvæmt, ekki að úttala mig um það hér og nú. Hv. þingmaður hefur vakið athygli á málinu en almennt liggur það fyrir, og hefur gerst yfir langan tíma, að mikið er af friðlýstum svæðum á landinu. Það er eitt af þeim verkefnum sem getið er um í stjórnarsáttmálanum hvernig fara eigi með það. Ég held að stóra málið sé það, og við lærðum það t.d. af umræðunni um hálendisþjóðgarð, að mörg sjónarmið eru uppi og það er nú eitt af því sem lagt er upp með í stjórnarsáttmálanum að hafa aukið samráð við heimamenn þegar menn vinna að þeim málum. Og ég tel það vera skynsamlegt og gott. En svo getum við líka sagt að við séum öll heimamenn, Íslendingar, og ég tel sömuleiðis mikilvægt að hlusta á útivistarsamtök og landverndarsamtök og aðra þá aðila sem telja sig hafa hagsmuna að gæta. Ég vil alla vega trúa því að samtal muni ekki leiða til neins annars en til góðs. (Forseti hringir.) Þó að það endi ekki endilega með því að allir verði sammála væri í það minnsta gott að við kæmumst að niðurstöðu um það um hvað við erum ósammála.