152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing fráfarandi umhverfisráðherra.

[13:46]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Óháð því hvað okkur þykir um akkúrat þær aðgerðir sem hér hafa komið til tals, þessa friðun í skjóli síðustu nætur, minna þær óneitanlega á aðgerðir einhverra sem telja sig þurfa að verja virkið áður en það fellur í óvinahendur. Þetta er svolítið sérstakt í ljósi þess að um er að ræða sömu ríkisstjórnarflokka. Hvað mig varðar þá beinir þetta athyglinni að fréttum um dreifingu raforku, um þá stöðu sem Landsvirkjun er í, farin að nýta sér skerðingarákvæði í orkusamningum vegna skorts á raforkudreifingu til loðnubræðslunnar nú þegar sú vertíð er fram undan. Við vitum að yfirfall úr Hálslóni í tíu daga hefði dugað til að bjarga þessari vertíð. Ég velti fyrir mér hvort það sem hér hefur borið á góma sé það sem koma skal í átökum ríkisstjórnarflokkanna um þetta mikilvæga mál í framtíðinni. (Forseti hringir.) Verður það leyst svona, hver verður frekastur hverju sinni, frekar en í samtali milli ríkisstjórnarflokka og hér innan þings? Þetta er mikilvægara en svo að hægt sé að útkljá það í sandkassa.