152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing fráfarandi umhverfisráðherra.

[14:00]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P):

Forseti. Mér finnst áhugavert að fjármálaráðherra fjalli hér um að þingið hafi nú öll tækifæri til þess að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu. Það ætti að vera augljóst öllum að fyrirspurnum er svarað seint og svör eru ávallt þannig að reynt er að fara fram hjá aðalatriðunum og sem minnstu er svarað, ef einhverju. Þegar hafið er frumkvæðismál í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd tekur meiri hlutinn sig saman og segir: Nei, okkur finnst þetta vera óþarfi, og lokar málinu með bókun. Þetta fjárlagafrumvarp — ætlar einhver að segja að þetta sé gagnsætt skjal sem við getum notað til þess að segja að þetta séu nákvæmlega fjárheimildir ráðherra? Ekki séns. Þannig að: Nei, þingið sem er með eftirlitshlutverk gagnvart framkvæmdarvaldinu, er með löggjafarhlutverkið, þarf nauðsynlega að fá réttar upplýsingar frá einmitt þeim aðila sem það er með eftirlit gagnvart en fær þær gagngert ekki. Það er alvarlegt. Það er mjög alvarlegt og það er á ábyrgð meiri hluta þingsins, þeirra þingmanna (Forseti hringir.) sem standa á bak við þennan ríkisstjórnarmeirihluta. (Forseti hringir.) Þau ákveða bókstaflega að eftirlitið virki ekki.