152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

friðlýsing fráfarandi umhverfisráðherra.

[14:01]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Þetta er svo sem ágætisumræða. Ég vil þó vekja athygli þingmanna á því að eftirlitshlutverki eða möguleikum þingmanna til að sinna því eftirlitshlutverki lýkur ekki þegar boðað er til kosninga. Það hafa alla tíð verið möguleikar, t.d. að boða þingnefndir á fund sé ástæða til, alveg fram á kjördag, vegna þess að umboðið er fram að kjördegi. Og það var ekki nýtt af miklum krafti, a.m.k. ekki hjá stjórnarandstöðunni. Ég dreg því þá ályktun að stjórnarandstaðan hafi ekki talið mikla ástæðu til að sinna þessu eftirlitshlutverki. Auk þess getur það verið gagnrýnivert ef verið er að veita einhverja fjármuni úr ráðuneytum. En þingmenn geta lagt fram fyrirspurnir, skriflegar fyrirspurnir, til hvers einasta ráðherra og fengið upplýsingar. Þingmenn geta líka, þess vegna hér í þingsal, t.d. í krafti setu sinnar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd, óskað eftir skýrslu Ríkisendurskoðunar til að athuga þau mál sem þeir telja að þurfi athugunar við. (Forseti hringir.) Það eru allir möguleikar til staðar fyrir þingmenn. Enginn sviptir þingmenn hljóðnemanum í aðdraganda kosninga eða eftir kosningar, hvorki í fjölmiðlum né annars staðar.