152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[14:37]
Horfa

Jóhann Páll Jóhannsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Nei, hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra, helsti þröskuldurinn er ekki áhyggjur Öryrkjabandalagsins af starfsgetumati. Helsti þröskuldurinn er skerðingakerfið sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur viðheldur. Það er alveg á hreinu.

Hvernig stendur á því að það er alveg sama hversu vel árar í samfélaginu, það er alveg sama hvort það er uppgangur í hagkerfinu eða hvort það er kreppuástand, að það þarf alltaf að skilja þá tekjulægstu eftir? Hæstv. fjármálaráðherra finnur alltaf einhverja afsökun fyrir að ríghalda grunnbótum almannatrygginga langt undir lágmarkslaunum. Hann finnur alltaf einhverja afsökun fyrir því að ríghalda frítekjumarki t.d. lífeyristekna hjá eldri borgurum í 25.000 kr. Hann finnur alltaf einhverja afsökun fyrir því að halda frítekjumarki atvinnutekna hjá öryrkjum í 109.600 kr. ár eftir ár eftir ár.