152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

breyting á ýmsum lögum vegna fjárlaga 2022.

3. mál
[16:51]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Hér talaði hæstv. fjármálaráðherra um að vilja framlengja átakið Allir vinna. Þetta er farið að heyrast víða. Það vakti athygli mína og vil ég á móti vekja athygli á þeirri spennitreyju sem virðist halda aftur af okkur í öðrum útgjöldum, en þarna virðist vera svigrúm vegna þess að þetta átak hefur kostað ríkissjóð 10 milljarða. Ég held að það sé mjög mikilvægt að halda því til haga þó að margt jákvætt hafi fengist út úr því. Það hefur líka verið ágætistaktur í byggingargeiranum og það er nú ekki auðvelt að fá iðnaðarmenn þessa dagana. Ég nefni þetta vegna þess að víða er rætt, t.d. í fjárlagafrumvarpinu, um að mörg Covid-úrræði séu að renna sitt skeið af því að atvinnuleysið hafi gengið niður.

Ég nefni þetta, virðulegi forseti, því að þrátt fyrir 20 milljarða kr. betri afkomu í fyrra en við var búist hefur hæstv. ráðherra borið fyrir sig í nýjustu útgáfu fjárlaganna að ekki sé hægt að hreyfa sig að neinu leyti vegna verðbólgu, þar með talið fyrir okkar viðkvæmustu hópa. Öryrkjar og eldri borgarar sjá rétt rúmlega 1 milljarðs kr. viðbót við sín kjör í þessum fjárlögum þrátt fyrir 120 milljarða kr. afkomubata, því að verðbólgan í landinu er of mikil til að ríkið geti hreyft sig. Þetta fólk er ekki í framkvæmdum heima hjá sér, það er að reyna að komast af. Við erum að tala um 1 milljarð miðað við 10 milljarða sem fóru í Allir vinna vegna Covid, og nú er verið að ræða um að endurvekja það og halda áfram. Gott og vel.

En við skulum aðeins hugsa um samhengi hlutanna þegar við tölum um upphæðir. Það var m.a. rætt í tengslum við Allir vinna að það sé ekki bara mikilvægt átak til að örva atvinnulífið, heldur líka vegna þess að það dragi úr svartri atvinnustarfsemi. Hugsum aðeins til enda hvernig rökfærsla er hér til staðar. Við viljum sem sagt hvetja einstaklinga til að borga lögbundin gjöld sín með afslætti og við erum tilbúin að veita peninga út í kerfið sem gætu verið þensluhvetjandi til þess að fólk sinni lögbundnum skyldum sínum. En við erum ekki með svigrúm til að leyfa öryrkjum að sækja sér vinnu í auknum mæli. Það er eitthvað bogið við þessa rökfærslu, vil ég leyfa mér að fullyrða. Í ofanálag má rekja þá verðbólgu sem nú heldur aftur af fjármögnun úrræða til þessara viðkvæmu hópa, samkvæmt hæstv. ráðherra, en virðist ekki halda aftur af mögulegri fjármögnun úrræða í atvinnugrein sem er í uppsveiflu til eignaverðshækkana hjá allt öðrum hópi, á íbúðamarkaði og til hliðar á verðbréfamarkaði.

Öryrkjar eiga fæstir húsnæði og ef þeir eiga húsnæði þá er það ekki dýrasta húsnæðið, sem hefur hækkað mest, og ekki eiga þeir mikinn sparnað og minnst í lífeyrissjóði, þar sem eignir hafa jú vissulega hækkað í verði. Eldra fólk á í lífeyrissjóði en þær lífeyrisgreiðslur skerðast að nær öllu leyti hjá þeim hópi sem mest þarf á breytingum að halda í dag, og þá er ég að tala um einstaklinga sem ekki eiga nóg í lífeyrissjóði til að lifa af og þurfa að treysta á almannatryggingar en fá lítið sem ekkert af lífeyristekjum sínum, hvað þá eignaverðshækkun, því að skerðingarmörkin hreyfast ekkert. Þessi hópur fær því ekkert aukalega vegna þessara eignaverðshækkana sem þrýsta nú á allt kerfið en kostnaðurinn lendir á þeim, því að verðbólgan hefur þyngst áhrif á einstaklingana sem hafa minnst á milli handanna.

Virðulegi forseti. Það er til marks um framfarir þjóðar hversu vel hún sinnir sínum viðkvæmustu hópum. Í þessu frumvarpi eru engar framfarir. Þetta kallast að niðurgreiða áhættu eins hóps á kostnað annars, því að það eru aðgerðir ríkisins sem valda verðbólgu dagsins í dag og eignaverðshækkunum dagsins í dag. Ákvörðun um að beina mestum stuðningi við hagkerfið í gegnum bankakerfið og Seðlabankann varð til þess að stór hluti fjármagns hljóp inn á eignamarkaði — eignamarkaði sem eru skapaðir af ríkinu — með ramma sem hefur byggt upp markaðshagkerfi dagsins í dag, ramma sem hefur vissulega gert fólki víða kleift að fjárfesta og sækja ávöxtun. En þetta er líka rammi sem gerði þeim sem stóðu betur að vígi í fyrra en margir aðrir kleift að bæta enn frekar við sig tekjum vegna aðgerða ríkisins í tengslum við Covid. Þetta sama fólk gat líka gert við heima hjá sér með afslætti. Nú skapar þessi rammi, þessi markaður, þrýsting á verðbólgutölur og heldur aftur af möguleikum okkar til að sækja fram og tryggja framfarir út frá þeirri skilgreiningu að framfarir þjóðar byggi á hversu vel hún sinnir sínum viðkvæmustu hópum.

Önnur leið til að skilgreina framfarir er hversu vel við hugum að unga fólkinu okkar, unga fólkinu sem þarf í sífellu að hlusta á mikilvægi þess að það þurfi að hlaupa hraðar fyrir eldri hópa því að lýðfræðin vinni á móti þeim. Bent er á að framleiðnin hafi aldrei verið mikilvægari, nýting menntunar, en aukasókn, umframsókn, hraðari sókn í stórum málum sem ákvarða framtíð lands og þjóðar, til að mynda loftslagsmál í þágu atvinnuuppbyggingar, eru nú í biðstöðu vegna verðbólgu. Engu er bætt við fyrri plön frá því í vor þrátt fyrir stórhuga stjórnarsáttmála.

Hræsnin er sú að þessi hópur, unga fólkið, líkt og eldra fólk og öryrkjar, er núna að lenda í tvöföldu höggi. Ríkisstjórnin situr í spennitreyju vanfjárfestingar í framtíðarstörfum fyrir þetta unga fólk vegna verðbólgu á íbúðamarkaði, sem bitnar mest á ungu fólki. Á síðustu 30 árum hefur íbúðaverð hækkað um nærri 50% — 50% — umfram ráðstöfunartekjur fólks og hækkanir eru enn þá meiri, næstum því tvöfalt meiri, meðal ungs fólks undir fertugu.

Dæmi um áhrif aðgerðaleysis í húsnæðismálum á Íslandi, sem hefur skapað þennan vítahring, þennan margumrædda vítahring íbúðaverðs, launahækkana og verðlagshækkana í þessum fjárlögum og heldur aftur af breytingum í þessum bandormi, er að þar kemur fram að endurskoða hefur þurft áætluð útgjöld ríkissjóðs vegna verðbólgu þeirra, vegna þess að verðbólgan var 1,7% hærri en við var búist. Þessari viðbótarverðbólgu fylgir kostnaður upp á 3,6 milljarða kr. Það er jafn há upphæð og ríkið leggur í fjárfestingu í húsnæði hér á landi í gegnum almenna íbúðakerfið. — Ég endurtek: Það fer jafn mikið í viðbótarverðbólgu út úr ríkissjóði vegna þessa spírals sem við erum komin inn í, og fer inn í almenna íbúðakerfið á þessu ári, kerfi sem gæti haldið aftur af umræddum hækkunum, kerfi sem gæti komið okkur í þá stöðu að við stæðum ekki stöðugt í þessum hækkunum.

Hér væri hægt að fjárfesta með virkum hætti í kerfunum okkar til að draga úr þrýstingi í stað þess að bakka bara og bíða eftir því að vandinn vindi sífellt upp á sig, í stað þess að benda á unga fólkið og segja því að hlaupa hraðar, vera með meiri framleiðni, láta einhvern veginn ótta um framtíðina drífa það áfram. Hvar liggur ábyrgðin í þessu máli? Þessum hópum, ungu fólki, og svo öryrkjum og eldra fólki, sem ekki hefur háar tekjur, er svo att saman einhvern veginn á þeim forsendum að það sé ekki svigrúm til að standa með viðkvæmasta fólkinu í landinu af því að það auki skuldir framtíðarkynslóða. Þannig er hægt að koma sér undan ábyrgð um ákvörðun um að breyta kerfunum, styrkja þau, stokka upp, með því að fullvissa unga fólkið okkar, nýjar kynslóðir, um að þetta sé ekki skynsamlegt.

Alvöruleiðtogar skilja stóru myndina og átta sig á eigin ábyrgð í þessu máli, sem er þessi spennitreyja sem við erum í í dag vegna aðgerðaleysis í stórum samfélagslegum verkefnum, líkt og á íbúðamarkaði, vegna áhugaleysis á að byggja upp alvörubarnabótakerfi sem dregur úr skattbyrði ungs fólks sem á að hlaupa hraðar og kaupa dýrari íbúð. Spenna hefur svo skapast sem heldur aftur af sókn fyrir þessar sömu framtíðarkynslóðir.

Hér þurfa stjórnvöld að hvetja til samstöðu hópa, að rjúfa þennan vítahring í stað þess að bakka og bíða eftir að samfélagssáttmáli okkar fyrir ungmenni, unga sem aldna, rofni, því að sókn fyrir þau ungu og framtíðina og vörn fyrir þá sem viðkvæmastir eru virðist ómöguleg því að ríkið er að lenda í verðbólgu.

Það er eitthvað að þegar stjórnvöld geta ekki losað hagkerfið og samfélagið úr vítahring. Það er eitthvað að þegar stjórnvöld upplifa sig valdalaus, horfa bara út um gluggann og benda á hættu í komandi kjaraviðræðum. Það er eitthvað að þegar stjórnvöld halda að það að vera stórhuga sé auðvelt, að sóknartækifæri birtist aðeins þegar aðstæður eru einfaldar og að bíða verði þar til lygnir til að gera eitthvað í málunum. Það er eitthvað að þegar stjórnvöld geta bara talað um kostnaðinn sem er að koma í stað þess að umbylta kerfunum okkar og breyta stöðunni.