152. löggjafarþing — 6. fundur,  7. des. 2021.

fjármálastefna 2022 - 2026.

2. mál
[19:47]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið og get tekið undir mikilvægi þess að við séum að greina þau gögn sem eru til. Hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra kom einmitt inn á, í ræðu áðan, mikilvægi þess að við nýtum þau gögn. Sem betur fer hafa verið stigin risastór skref í þessu nú á síðustu árum og ég held að það megi hrósa hæstv. ráðherra fyrir það. Við getum horft á tekjusöguna, við getum líka horft á framsetninguna á fjárlögum núna og fjárlög.is þar sem birtist allt önnur og miklu skýrari mynd fyrir almenning og okkur þingmenn af því sem um er að ræða hér. Ég nefndi líka áðan fjármálaáætlunina og að við höfum með henni miklu betra tæki til að hafa eftirlit með fjármálum ríkisins, við þingmenn, þegar kemur að þeirri umfjöllun.

Varðandi ferðamennina þá ítreka ég það sem ég sagði áðan, ég held að fjöldinn skipti ekki öllu máli. Við eigum að horfa á hvað kemur út úr greininni, hverju greinin skilar. Ég held að við höfum verið að gera frábæra hluti varðandi kynningu á Íslandi sem ferðamannastað og ég er ofboðslega bjartsýn á framtíð íslenskrar ferðaþjónustu. Ég held að þegar við rísum núna upp úr kófinu verði tækifærin meiri en nokkru sinni. En ég vona líka að við höfum hugrekki til að nýta þau tækifæri vel og minn áróður er sá að mér finnst það ekki snúast um fjölgun ferðamanna eða fjölda hausa heldur fyrst og fremst hverju ferðaþjónustan skilar Íslandi. Það er gaman að sjá hvernig okkur hefur tekist að markaðssetja landið, bæði til ferðamanna en líka til væntanlegra íbúa, til fjárfesta og bara til alheimsins, og það hvað Ísland stendur fyrir sem sjálfbær græn eyja þar sem stunduð er græn nýsköpun. Allt þetta vinnur saman. Hvað það varðar erum við líka með menningu okkar og sögu, kvikmyndageirann og allt það sem hefur einmitt unnið að því að markaðssetja Ísland sem ferðamannastað.