Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

störf þingsins.

[13:36]
Horfa

Eva Sjöfn Helgadóttir (P):

Forseti. Við höfum heyrt hræðilegar og átakanlegar sögur af reynslu kvenna sem hlutu úrræði á Laugalandi í æsku á vegum barnaverndar. Konurnar hafa sagt frá ofbeldi sem þær urðu fyrir þegar þær voru vistaðar á meðferðarheimilinu. Nú fyrir nokkrum vikum steig framkvæmdastýra barnaverndar Reykjavíkur fram og sagði frá þeim mikla skorti á úrræðum sem barnaverndaryfirvöld standa nú frammi fyrir. Skortur sem þessi er ólíðandi. En það er þó ekki aðeins skorturinn sem er slæmur heldur hafa úrræðin mörg hver ekki þróast mikið á síðustu 10–20 árum. Það þarf að leggja mun meiri orku og fjármagn í að sinna fjölskyldum og börnum í barnaverndarkerfinu. Það er ekki boðlegt að hér á landi séum við ekki að tryggja að börn í mjög viðkvæmri stöðu fái ekki bestu þjónustu sem völ er á. Það er ótrúlegt að árið 2022 þurfi barnaverndarkerfið enn að kljást við skilningsleysi stjórnvalda frammi fyrir mikilvægi þess að veita viðeigandi úrræði hverju sinni. Börn með flókinn geð- og hegðunarvanda eru gjörsamlega vanrækt af stjórnvöldum. Það er bráðnauðsynlegt að setja börn í barnaverndarkerfinu í forgang og tryggja að úrræðin séu tiltæk og ekki yfirfull. Í svari hæstv. barna- og menntamálaráðherra við fyrirspurn minni um hvaða fjárveitingar hafa verið veittar til að tryggja að málastjórar og tengiliðir hafi yfir úrræðum að ráða í sveitarfélögum segir orðrétt, með leyfi forseta: „Engar fjárveitingar hafa runnið frá ríki til sveitarfélaga sem er sérstaklega ætlað að koma á fót úrræðum fyrir börn vegna verkefna sem eru á ábyrgð sveitarfélaga.“

Ef ekki verður brugðist við þessu úrræðaleysi upprætum við ekki vandann. Vandinn er augljós og viðvarandi en viðbrögðin og viljinn hjá stjórnvöldum er enginn. Án fjárveitinga virkar kerfið ekki. Ef ráðherra ákveður að bregðast ekki við gætum við heyrt jafn átakanlegar sögur eftir 20 ár.