Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[14:40]
Horfa

Flm. (Logi Einarsson) (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Nei, það er af og frá vegna þess að þingsályktunartillaga þess efnis hafði verið flutt áður en mælingar voru jafn hagstæðar aðildarsinnum og nú er. Ég verð að viðurkenna, í ljósi sögunnar og þess hvernig farið var með málið á sínum tíma, að það hefði verið heppilegra að spyrja þjóðina tvisvar, þótt vissulega sé ekkert sem kallar á það. Ég tel að eina rétta leiðin núna sé að fá sterkara umboð fyrir þessum aðildarsamningum. Þetta er auðvitað ekki alveg óþekkt vegna þess að Svisslendingar gerðu þetta og fóru tvisvar í þjóðaratkvæðagreiðslu. Því held ég út af fyrir sig að breytt staða og framganga Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins í málinu hafi fyrst og fremst verið tilefni til að leita álits þjóðarinnar tvisvar. (Forseti hringir.) Það má minna á að formenn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins hafa báðir lofað því í kosningum að fara í þjóðaratkvæðagreiðslu um áframhaldandi aðildarviðræður (Forseti hringir.), þótt síðar hafi sá fyrrnefndi skilgreint það sem pólitískan ómöguleika sem hann gat ekki skýrt fyrir neinum nema sjálfum sér.