Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

þjóðaratkvæðagreiðsla um framhald viðræðna við Evrópusambandið.

3. mál
[15:01]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Af tíma er alltaf nóg. Pabbi minn heitinn sagði: Það dýrmætasta sem þú átt er tíminn því hann líður hjá hverju og einu okkar. Við þurfum að fara vel með tímann, við sem stjórnmálafólk þurfum að fara vel með þann tíma sem við vinnum í þágu þjóðarinnar. Það erum við flutningsmennirnir að mínu mati að gera með því að leggja fram þessa tillögu. Við erum að nýta tímann í þágu þjóðar og samfélagshagsmuna. Varðandi samningsmarkmiðin þá er það ekki fyrr en í lok 2023 sem við áætlum að atkvæðagreiðslan verði og það er m.a. vegna þess að við teljum mikilvægt að þjóðin fái tíma til að upplýsa sig. Það þarf að mínu mati að breyta og skerpa á ákveðnum samningsmarkmiðum frá 2009. En stóru markmiðin eru einmitt þessi, sem eru breytt að mínu mati, í þessum heimi sem við búum í; það er þessi efnahagslegi stöðugleiki sem við þurfum svo nauðsynlega á að halda og ég fór yfir það áðan, hjá heimilum og fjölskyldum í landinu, hjá litlu og meðalstóru fyrirtækjum sem eru að berjast í bökkum núna vegna þessarar sveiflu í krónunni. Eftir því sem tíminn líður frá því við byrjuðum aðildarumsóknarferlið þá sjáum við, að mínu mati, að það er frekar þannig að rökin falli með því að við klárum ferlið af því að efnahagslegir, viðskiptalegir og öryggislegir hagsmunir eru það miklir.

Varðandi sjávarútveginn þá er þessi regla um hlutfallslegan stöðugleika sem segir til um að þær þjóðir sem hafa veitt innan lögsögu tiltekinn tíma fram að þeim samningum geti einar veitt innan lögsögunnar. (Forseti hringir.) Það erum við Íslendingar, það er alveg skýrt. Menn hafa reynt að draga fram og spyrja: Hvað með Spánverjana? Nú eru Englendingar farnir. Þeir myndu ekki fá neina heimild. (Forseti hringir.) Við munum ráða yfir þessu og það hefur verið alveg skýrt og það kom fram, veit ég, í óformlegum samtölum í þessu ferli. (Forseti hringir.) En við skulum bara gera það sem ég hef verið að segja. Við skulum bara klára þetta og fá þetta á hreint. Þá getur þjóðin metið það.

(Forseti (JSkúl): Forseti minnir þingmenn á að virða ræðutímann. )