Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[19:48]
Horfa

Flm. (Inga Sæland) (Flf):

Virðulegur forseti. Ég mæli hér fyrir tillögu til þingsályktunar um skattleysi launatekna undir 400.000 kr. og 400.000 kr. lágmark til framfærslu lífeyrisþega. Öllum þingmönnum og ráðherrum var boðið að vera með okkur á þessu frumvarpi en enginn þáði það. Það er Flokkur fólksins sem sameiginlega flytur þessa tillögu, ásamt mér eru hv. þingmenn Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Eyjólfur Ármannsson, Guðmundur Ingi Kristinsson, Jakob Frímann Magnússon og Tómas A. Tómasson.

Alþingi ályktar að fela fjármála- og efnahagsráðherra að leggja fram lagafrumvarp fyrir árslok 2023 sem kveði í fyrsta lagi á um að tekinn verði upp fallandi persónuafsláttur þannig að skattleysismörk verði yfir 400.000 kr. og að persónuafsláttur falli niður með sveigðu ferli við ákveðin efri mörk.

Í öðru lagi að breytingar verði gerðar á skiptingu útsvars og tekjuskatts af skattstofni til að jafna tekjuáhrif vegna hækkunar skattleysismarka á milli ríkis og sveitarfélaga og að fullur örorkulífeyrir, endurhæfingarlífeyrir og ellilífeyrir tryggi lífeyrisþegum 400.000 kr. í ráðstöfunartekjur á mánuði, skatta- og skerðingarlaust. Í greinargerð með tillögunni segir, með leyfi forseta:

„Tillaga þessi var lögð fram á 151. og 152. löggjafarþingi (7. mál) en náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram að nýju. Efni tillögunnar var áður að finna í tveimur tillögum frá 150. löggjafarþingi (9. og 17. mál) sem síðar voru sameinaðar í eina tillögu á 151. löggjafarþingi. Fjárhæðir tillögugreinarinnar hafa verið uppfærðar til samræmis við þróun launa og verðlags frá því að tillagan var lögð fram á 151. löggjafarþingi og hækka því úr 350.000 kr. í 400.000 kr. Frá þeim tíma hefur launavísitalan hækkað úr 747,1 stigi í 855,8 stig, eða um tæp 15%, og vísitala neysluverðs hefur á sama tíma hækkað úr 489,1 stigi í 555,1 stig, eða um tæp 14%.“

Á undanförnum áratugum hefur íslenskur efnahagur dafnað. Á sama tíma hefur fjárhagsstaða íslenskra íslenska ríkisins batnað og verðlag haldist stöðugt. Launaþróun hefur einnig verið jákvæð. Þrátt fyrir mikinn árangur síðustu ára hefur ábatinn ekki skilað sér til allra, því miður. Nú er staðan þó önnur. Fjöldi fólks missti vinnu vegna heimsfaraldurs kórónuveiru og enda þótt atvinnuleysi hafi minnkað undanfarið þá þekkjum við öll verðbólgudrauginn sem rauk af stað, eins og við í Flokki fólksins, ég og hv. þm. Guðmundur Ingi Kristinsson tókum margítrekað fyrir í þessum sal fljótlega eftir að heimsfaraldur kórónuveirunnar flæddi yfir heimsbyggðina. Það var alveg sama hvern við spurðum að því, bæði hæstv. forsætisráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, hvort það ætti ekki að gera eitthvað til að vernda heimilin í landinu, hvort ætti ekki einhvern veginn að koma belti og axlaböndum á fjölskyldur og heimilin í landinu og efnaminna fólk, hvort virkilega ætti að láta reka á reiðanum og tefla í þá tvísýnu að fólk missti heimili sín á báli verðbólgu og undir hamarinn eins og gerðist í efnahagshruninu 2008, það varð fátt um svör. Eins og þið vitið öll, virðulegi forseti, þá náttúrlega varð fátt um svör nema bara að það væri ekkert að óttast. Við þyrftum ekki að hafa neinar áhyggjur. Við höfðum sem sagt óþarfa áhyggjur, það væru engin teikn á lofti um að verðbólga væri í uppsiglingu. Þarna var allur jarðvegur fyrir verðbólguskot og lá hann þegar fyrir í heimsfaraldri kórónuveiru. Við vitum öll hvernig tókst að kaupa inn vörur, hvernig allt botnfraus, bæði framleiðslugeta, vöruflokkar og annað slíkt. Þetta barst ekki til landsins nema eftir dúk og disk og þurftum við að bíða mánuðum saman eftir ákveðnum vörum. Það breytti ekki þeirri staðreynd að við megum sjálfsagt þakka fyrir það, því aðrir höfðu það sannarlega verra en við hvað þetta varðar.

En verðbólgan kom heldur betur. Evrópa fékk stríð í fangið. Í Evrópu geisar stríð sem ég ætla ekki að tala um hér því allir hafa heyrt það og rætt það og alvarleika þess. Í kjölfar Úkraínustríðsins núna erum við að glíma við fordæmalausar efnahagslegar afleiðingar, og við sjáum hvað er að gerast í löndunum í kringum okkur, hvernig orkuverðið þar hefur gjörsamlega rokið upp úr öllu valdi, orkureikningar heimila og fyrirtækja hafa tvöfaldast og jafnvel þrefaldast. Því megum við enn frekar þakka fyrir hversu heppin við erum að eiga orkuauðlindir okkar. Ég verð nú að viðurkenna að ef mínir ágætu kollegar í Samfylkingu, Viðreisn og Pírötum vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræður við Evrópusambandið með tilliti til þess að þær nái fram að ganga þá finnst mér þessi tímasetning alger skekkja. Það veit hamingjan að kannski fyrir nokkrum mánuðum, fyrir stríðið, hefði það gengið upp en í dag eru Íslendingar ekki sérstaklega ginnkeyptir fyrir því. Að sjálfsögðu er lýðræðislegt að fara í atkvæðagreiðslu en með tilliti til þess að vilja gjarnan fá meiri hlutann til að samþykkja hana þá er þetta tímaskekkja.

Regluleg útgjöld fólks hafa aukist eins og við vitum og húsnæðisverð hefur hækkað til muna á skömmum tíma. Þá er útlit fyrir að verðlag haldi áfram að hækka næstu misseri og bitnar það óumdeilanlega verst á fátæku fólki, sem munar um hverja einustu krónu í útgjöldum. Á tímum sem þessum er nauðsynlegt að standa vörð um þá sem hafa minnst milli handanna. Það gerum við í Flokki fólksins. Ofboðslega vildi ég óska þess að ég væri í ríkisstjórn. Ofboðslega vildi ég óska þess að mál sem hafa komið hér fram nái fram að ganga, til að hjálpa fólki sem þarf á hjálp okkar að halda, sem hrópar á löggjafann: Gerið eitthvað fyrir okkur.

Mikið vildi ég óska þess að málin okkar í Flokki fólksins fengju meira brautargengi hér inni í samkundunni en að vera fleygt í ruslið í hvert einasta sinn. Við mælum fyrir hverju málinu á fætur öðru og það er næsta víst að við munum ekki fá brotabrot af þeim hér inn og sennilega ekki nema eitt eða tvö, á góðum degi, í atkvæðagreiðslu. En hvað um það. Dropinn holar steininn. Það þýðir ekkert að æmta og skræmta hvað það varðar. Við höldum bara áfram veginn eins og okkar góði þingmaður og samflokksfélagi, hv. Tómas A. Tómasson, segir gjarnan: Áfram veginn. Það er Flokkur fólksins. Við höldum ótrauð áfram. Sex manna herinn mun halda áfram að berjast gegn fátækt og berjast fyrir þá sem þurfa að eiga öflugan málsvara á Alþingi. Eitt er víst að fátækt fólk á Íslandi, tekjulágt fólk, öryrkjar og eldri borgarar, eiga öfluga málsvara á Íslandi í dag þó að þeir sitji ekki í ríkisstjórn og geti komið málum í gegn eins og við munum gera þegar þeir veita okkur umboð til þess í næstu kosningum. Eflaust munu margir kalla þessar tillögur ótímabærar þar sem nú þurfi að halda að sér höndum í ríkisfjármálunum. Staðreyndin er þó einfaldlega sú að fólkið í landinu getur ekki tekist á við afleiðingar verðbólgunnar án þess að fá þær kjarabætur sem áttu að skila sér í góðærinu.

Virðulegur forseti. Það munar núna yfir 100.000 kr. á lægstu atvinnuleysisbótum og lægstu framfærslu almannatrygginga. Kjaragliðnunin hefur gengið áfram ár eftir ár, vaxið áfram ár eftir ár frá síðasta efnahagshruni. Auðvitað var því lofað þá að það skyldi leiðrétta þær skerðingar sem almannatryggingaþegar þurftu að taka á sig eins og allir aðrir í landinu. Eins og löggjafinn, löggjafarsamkundan, ráðherrar og allir aðrir embættismenn og launþegar í landinu þurftu að gera, taka á sig skerðingar til að reyna að koma okkur upp úr þeirri efnahagslægð sem við vorum að takast á við þá, í efnahagshruninu sjálfu. En hvað skyldi hafa orðið ofan á? Það eru allar stéttir og þjóðfélagshópar í samfélaginu búnar að fá leiðréttinguna sem var lofað á þessum tíma nema fátækasta fólkið í landinu, nema almannatryggingaþegar sem hafa ekki annað á milli handanna en greiðslur frá almannatryggingum.

Hugsa sér, virðulegi forseti. Þetta er fimmta árið mitt hér þar sem við hrópum hástöfum á hjálp fyrir þetta fólk. Staða heimilanna og fátæka fólksins hefur aldrei síðan ég kom inn á Alþingi Íslendinga verið eins slæm og hún er í dag. Hugsið ykkur, í tæplega 10% verðbólgu. Nú hefur Flokkur fólksins ítrekað mælt fyrir frumvarpi um að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölunni, húsnæðisliðinn sem einn og sér skellir á okkur á fjórða prósent verðbólgu. Á einni nóttu, með einu pennastriki mætti strika út 3,4% af þessari verðbólgu sem við höfum verið að takast á við. Hverjir hefðu í raun fengið mest út úr því? Auðvitað þeir sem hafa ekki efni á að kaupa matarkörfuna sem var búin að hækka um hátt í 20% á ótrúlega skömmum tíma. Við megum einfaldlega ekki skilja fátækt fólk eftir eina ferðina enn. Við getum ekki gert það. Það hefur verið gert allt of oft og hefur í raun alltaf verið gert.

Í skýrslu um dreifingu skattbyrði sem unnin var fyrir stéttarfélagið Eflingu og birt í febrúar 2019 kemur fram að milli áranna 1993 og 2015 lækkaði skattbyrði hæstu tekjuhópa. Þá lækkaði, virðulegi forseti, skattbyrði hæst launuðustu tekjuhópanna á meðan skattbyrði lægst launuðu tekjuhópanna jókst. Hvers lags eiginlega öfugmæli eru þetta? Hvers lags eiginlega sanngirni er þetta? Hvernig dettur nokkrum í hug að koma hér upp í þennan ræðustól og kalla þetta jöfnuð? Á sama tíma þá hefur fasteignaverðið hækkað verulega og eins og við vitum þá er það í einu orði sagt klikkað, þetta fasteignaverð. Síðan þá hefur hækkunin aukist stig af stigi og nánast í veldisvexti. Ég held að íbúðin sem ég keypti mér fyrir hálfu öðru ári síðan sé búin að tvöfaldast í verði. Hvaða rugl er það, virðulegi forseti?

Vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hefur á síðasta áratug, takið eftir því, hækkað úr 344 stigum í 951 stig samkvæmt Þjóðskrá Íslands. Íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað á þessu tímabili um 276% á síðustu tíu árum. Hugsið ykkur. Þá hækkar húsnæðisverð ört á landsbyggðinni. Þessi þróun kemur verst við lágtekjufólk sem þarf að verja stærstum hluta tekna sinna í húsnæðiskostnað, eða ég endurtek: sem mörg hver þurfa að verja öllum framfærslutekjum sínum í það að koma sér þaki yfir höfuðið. Allir vita nákvæmlega hvernig leigumarkaðurinn er í Reykjavík. Þú færð ekki einu sinni kjallaraíbúð fyrir 200.000 á mánuði og það vita líka allir sem vita vilja að þeir sem eru lágtekjufólk, hafa minnst á milli handanna, þeir ganga hvergi inn í neina lánastofnun eða nokkurs staðar og fá greiðslumat til að geta mögulega fjárfest í eign. Nei, því miður vinurinn, þetta er ekki fyrir þig. Þú færð ekki að taka þátt í okkar samfélagi. Bíddu í bílnum.

Virðulegi forseti. Ég er ekki einu sinni byrjuð á því að lesa þetta því ég ruglaðist á því að þetta er tillaga en ekki frumvarp. Ég er farin að sjá eftir að hafa ekki lagt þetta fram í formi frumvarps því þá hefði ég fengið að tala við ykkur eitthvað fram eftir kvöldi. Þetta eru 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust. Okkur hátekjufólkinu munar ekkert um að færa persónuafsláttinn frá okkur til þeirra sem hafa minna á milli handanna. (Forseti hringir.) Af hverju munar okkur ekki um það? Við höfum nefnilega efni á því og þeir þurfa á því að halda.