Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[20:30]
Horfa

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir andsvarið og spurningarnar. Jú, það er rétt skilið að það sem ég er að tala um hér er kallað borgaralaun í daglegu tali og þau eru sannarlega umdeild, m.a. vegna þeirra ástæðna sem þingmaðurinn nefnir. Það er rétt skilið að þessi skilyrðislausa grunnframfærsla, borgaralaun, yrði greiðsla sem allir fengju algerlega óháð öllu öðru, þar á meðal einstaklingar í hálaunastörfum.

Launaþróun í samfélagi okkar í dag er í takt við það kerfi sem við höfum byggt upp og það er alveg rétt skilið hjá hv. þingmanni, og ég er sammála því, að borgaralaun eru ekki eitthvað sem við getum tekið upp á morgun með því að leggja af allt velferðarkerfið og skrifa upp á ávísun fyrir hvern borgara, heldur snýst þetta um algerlega breytta hugsun á samfélaginu öllu. Það myndi væntanlega leiða til þess að t.d. laun myndu breytast. Ég þekki það erlendis frá, þar sem það tíðkast frekar, að þegar fólk semur um laun við sinn vinnuveitanda, þeim sem yfir höfuð er gefinn kostur á því, þá er samið um þau út frá þeirri fjárhæð sem fer í vasann eftir skatt og öðru slíku. Ég ímynda mér ekki annað en að það yrði eins ef um slík borgaralaun væri að ræða. Ég sé fyrir mér að það yrði einfaldlega jafnari launaþróun. Þarna erum við líka að tala um samfélag þar sem ýmsar aðrar breytingar hafa verið gerðar, sem gerast ekki á einum degi.

Svo ég svari spurningu hv. þingmanns : Já, þetta hefur verið reiknað út og það hafa verið gerðar tilraunir með borgaralaun og eru tilraunir í gangi víða um heim í litlum módelum. (Forseti hringir.) Eins og staðan er í dag er niðurstaðan sú að þetta svari ekki kostnaði en þetta er umræða sem þurfum að halda áfram í framtíðinni vegna þess að ég tel þetta óhjákvæmilega þróun.