Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

hækkun skattleysismarka og lágmarksframfærslu lífeyrisþega.

4. mál
[21:00]
Horfa

Guðmundur Ingi Kristinsson (Flf):

Virðulegur forseti. Ég vil koma hérna aftur upp og ræða aðeins meira um þessa frábæru þingsályktunartillögu okkar í Flokki fólksins. Ég tel að við þurfum að ítreka það að við erum með þúsund börn í fátækt og við erum með einstaklinga sem lifa undir fátæktarmörkum og því miður líka stóran hóp í sárafátækt. Þetta segir okkur að ríkisstjórnin mun viðhalda þessu kerfi. Ég vona heitt og innilega að við getum komið þessu máli á einhvern rekspöl þannig að ríkisstjórnin stöðvi sérstaklega þessa skattheimtu á fátækasta fólkið okkar.

Ég hef áður minnst á grein sem ég las í blaði fyrir nokkru síðan en þar var um að ræða könnun í Bretlandi á áhrifum fátæktar á ævilíkur kvenna. Háskóli í Bretlandi gerði könnun 2001–2016 og þar kemur fram að dauðsföll meðal Breta sem búa við fátækt, sérstaklega meðal kvenna, eru mörg. Munur á milli kvenna sem lifa við fátækt og þeirra kvenna sem lifa við velmegun er um sjö ár og bilið eykst. Konur sem lifa við fátækt lifa að meðaltali 78,8 ár í Bretlandi. Þær sem eru efnameiri lifa að meðaltali í 86,7 ár. Annað sem var sláandi í þessari könnun var að rannsóknin benti til að banamein þeirra fátækustu er oft veikindi og sjúkdómar sem auðvelt hefði verið að koma í veg fyrir. Þau deyja úr sjúkdómum sem hefði verið auðvelt að lækna ef þau hefðu skilað sér inn í læknismeðferð. Ég segi fyrir mitt leyti að það er grafalvarlegt mál ef einhver geta ekki leitað sér læknishjálpar vegna fátæktar og það bitnar svo illa á þeim að þau deyja úr sjúkdómum sem mjög auðvelt er að lækna ef þau hefðu efni á læknisþjónustu. Það segir sig sjálft að ég hef því miður orðið var við það hjá þeim sem lifa við fátækt í dag að læknisþjónusta er ekki í fyrsta, öðru eða þriðja sæti. Í fyrsta og öðru sæti er að lifa af og að fjölskyldan hafi í sig og á. Ég er hræddur um að gera þurfi slíka könnun hér. Það þarf að athuga þetta vegna þess að ég veit um fólk sem fer ekki til læknis eða sjúkraþjálfara af því að það hefur ekki efni á því. Það byrjar á því að ganga frá húsnæðinu, síðan er það fæðið og börnin en læknisþjónustan er ekki í forgangi. Það eru mjög sláandi tölur í þessari könnun og þetta er líklega ekkert öðruvísi hér á landi en í Bretlandi. Ég held að við þurfum að skoða þetta vel og vandlega vegna þess að þetta er grafalvarlegt mál. Ef börn, konur og karlar geta ekki leitað sér læknishjálpar vegna fátæktar er það ömurlegt og fáránlegt í ríku landi eins og Íslandi.

Það er staðreynd og fer ekki milli mála að þeir einstaklingar sem eiga að reyna að lifa á 300.000 kr. á mánuði kvarta undan því að þeir eigi ekki fyrir mat, lyfjum og öðrum nauðsynjum og hvað þá með fólk sem er að reyna að lifa af 225.000 kr. eða minna, og verður að halda áfram að reyna að tóra á þeirri hungurlús. Það er okkur til háborinnar skammar að við skulum leyfa okkur að koma svona fram við fólk, sérstaklega í því tilfelli þegar við erum að tala um veikt fólk sem getur ekki varið sig og aldrað fólk sem er búið að vinna alla sína tíð og borga í lífeyrissjóð og á þessa peninga. Lífeyrissjóðurinn er tekinn af þessu fólki með sköttum og skerðingum, ekki til að nota fyrir þau sjálf þannig að þau geti haft það gott heldur er það bara látið hverfa í hítina. Einhvern veginn sitja þau eftir sem eiga þessa peninga með gallbragð í munninum og fá þá ekki. Fólk sem hefur unnið láglaunavinnu alla ævi er að spá í að fara á eftirlaun og spyr: Hvað fæ ég út úr því að fara á eftirlaun? Svarið er: Lítið sem ekkert. Það verður fyrst skelfingu lostið og svo reitt þegar það áttar sig á því að lífeyrissjóðsgreiðslur skila sér ekki til þeirra vegna skatta og skerðinga. Það er verið að skattleggja fólk og skerða til fátæktar.

Þess vegna viljum við breyta þessu og þess vegna leggjum við þessa tillögu fram til að geta komið hlutunum þannig fyrir að enginn þurfi að lifa í fátækt, hvað þá sárafátækt. 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust er engin ofrausn. Það er fyrsta skrefið til þess að reyna að leyfa fólki að lifa með einhverri reisn, að það hafi alla vega smá möguleika á því og það sé komið fram af virðingu við eldra fólkið okkar, sem hefur unnið og byggt upp þetta land og borgað sitt í lífeyrissjóð og veikt fólk sem einhverra hluta vegna hefur lent í slysum eða hefur hreinlega orðið veikindum að bráð, og séð til þess í eitt skipti fyrir öll að það fái framfærslu, t.d. 400.000 kr. skatta- og skerðingarlaust til að lifa með reisn.