Bráðabirgðaútgáfa.

153. löggjafarþing — 6. fundur,  20. sept. 2022.

kosningalög.

14. mál
[21:36]
Horfa

Gísli Rafn Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ansi góða framsögu. Mig langaði að spyrja hv. þingmann aðeins út í það hvernig hún telur að þetta mál gæti farið í gegn. Eins og hv. þingmaður nefndi, ef við ætlum að ná virkilega jöfnu atkvæðavægi þá þyrftum við sennilega að breyta stjórnarskránni. Og eins og hv. þingmaður gaf okkur góða yfirsýn yfir þá hefur það reynst flóknara en maður hefði vonað. Og á sama tíma er með þessu frumvarpi lagt til að það verði dálítið miklar breytingar á þingsætum milli kjördæma. Í þeirri töflu sem sýnd er í greinargerðinni er t.d. horft á það að Norðvesturkjördæmi myndi tapa einu þingsæti, Norðausturkjördæmi þremur, Suðurkjördæmi annaðhvort engu eða einu á meðan Reykjavíkurkjördæmin haldist. Þá myndu bætast við allt frá fjórum og upp í fimm sæti í suðvestur, sem er náttúrlega gott fyrir okkur þingmenn úr Suðvesturkjördæmi. En hvort heldur hv. þingmaður að sé auðveldara, að fá þingmenn úr landsbyggðarkjördæmunum til að afsala sér sætum í rauninni með því að minnka fjöldann eða breyta stjórnarskránni? Hvort heldur hv. þingmaður að sé auðveldara að ná samkomulagi um?