132. löggjafarþing — 60. fundur,  7. feb. 2006.

Hlutafélög.

404. mál
[14:13]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Reyndar er frumvarp hv. þingmanns ekki komið á dagskrá. En hún hefur farið yfir það í máli sínu og gerir lítið úr mínu frumvarpi. Ég held að munurinn liggi kannski í því að hv. þingmaður er ekki mikið að velta fyrir sér hagsmunum fyrirtækjanna og því að þau eru mörg hver í samkeppnisrekstri og sennilega öll þau sem breytt er í hlutafélög. Hún sagði áðan að samkeppnisreksturinn ætti hugsanlega að vera undanskilinn upplýsingaskyldunni. Ég held að það sýni betur en mörg orð hvar hún fer vill vegar í málflutningi sínum. Mér finnst þetta gamaldags hugsunarháttur og er á móti þessu.

Það er t.d. eitt að hlutur ríkisins verði ekki seldur nema með auknum meiri hluta. Hv. þingmaður vill að það sé sett inn í hlutafélagalög, sem ég tel algerlega fráleitt. Það er þannig hér á hv. Alþingi, ef við tökum það sem dæmi þótt hv. þingmaður sé líka að tala um sveitarstjórnir, að hér ræður meiri hlutinn. Í frumvarpinu um Ríkisútvarpið hf. er t.d. ákvæði þess efnis að stofnunin verði ekki seld, Ríkisútvarpið hf. verði ekki selt. Það þarf ekki nema meirihlutaákvörðun á hv. Alþingi til að breyta því þótt ég voni svo sannarlega að svo verði ekki.

Ég vildi spyrja hv. þingmann hvernig hún ætlar að leysa þetta með 40% ef um þriggja manna stjórn er að ræða. Varðandi það að alþingismenn og sveitarstjórnarmenn eigi að hafa málfrelsi bæði á hluthafafundum og aðalfundum. Þegar hv. þm. Jón Bjarnason kemur á fundinn og talar í fimm klukkutíma, finnst hv. þingmanni sem að það yrði því fyrirtæki til framdráttar?