133. löggjafarþing — 60. fundur,  25. jan. 2007.

framkvæmd þjóðlendulaga.

[11:26]
Hlusta

Jón Kristjánsson (F):

Virðulegi forseti. Tilgangurinn með setningu laganna um þjóðlendur var að setja lagaramma um ábyrgð ríkisins á einskismannslandi og skýra mörk eignarlanda og þeirra landsvæða. Þetta var að mínum dómi og þeirra sem að lagasetningunni stóðu nauðsynjamál og þarft. Tilgangurinn var ekki að gera eignir landeigenda upptækar til ríkisins né ganga á rétt landlausra sem njóta útivistar. Þarna var ekki um að ræða eignaupptöku af neinu tagi. Þetta var sá almenni skilningur þeirra sem studdu þessa lagasetningu á sínum tíma.

Því miður hefur framkvæmd laganna verið með öðrum hætti en þá hina sömu óraði fyrir. Kröfur hafa verið settar fram, þinglýstir pappírar hafa ekki verið teknir gildir af ástæðum sem fjármálaráðherra rakti áðan og skemmst er frá því að segja að logandi ófriður hefur verið á þeim svæðum sem sæta kröfugerðinni hverju sinni. Svo virðist sem stígandi hafi verið í kröfugerðinni eftir því sem fleiri landsvæði voru lögð undir, kröfur eru þingfestar í jarðirnar og fram undan eru málaferli sem geta tekið langan tíma. Þessu verður að linna. Það styrjaldarástand við landeigendur sem nú ríkir á þessum svæðum er ekki þolandi.

Fjármálaráðherra hæstv. sem fer með framkvæmdirnar fyrir hönd ríkissjóðs er yfirvegaður maður og velviljaður, það þekki ég vel, og ég treysti honum ágætlega til að lagfæra þessa framkvæmd, bæði gagnvart þeim svæðum sem á eftir að taka fyrir og þeim sem lýst hefur verið kröfum í nú þegar. Ef breytingar á lögum eru nauðsynlegar til að vinna að slíku er ég tilbúinn til að vinna að því. Þegar hefur ráðherra stigið jákvætt skref í þessu efni sem felur í sér í stuttu máli að byrja á samningaleiðinni. Það breytir því hins vegar ekki að lýst hefur verið kröfum og þær þingfestar í stór landsvæði á Norðausturlandi sem eru í eigu einstaklinga og sveitarfélaga. Landeigendur hafa nú ákveðið að bindast samtökum til að styrkja stöðu sína í meðferð þessara mála gagnvart stjórnvöldum. Stofnfundur þeirra verður haldinn síðar á þessum degi. Ég tel að nú þegar þurfi að setjast niður með (Forseti hringir.) forustumönnum þeirra nýju samtaka og finna leiðir til friðar í málinu.