135. löggjafarþing — 60. fundur,  6. feb. 2008.

krabbamein í blöðruhálskirtli.

334. mál
[14:19]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er áhugaverð fyrirspurn sem hér liggur fyrir og eins svar ráðherra að það sé verið að skoða og huga að fleiri krabbameinstegundum en nú er skimað fyrir og fyrir utan þá leit sem nú er í undirbúningi, þ.e. að skima fyrir krabbameini í ristli.

Með hækkandi aldri þjóðarinnar eru meiri líkur á að fleiri greinist með krabbamein. Þetta er hluti af þessu sjúkdómsferli að þeim tilfellum fjölgar með hækkandi aldri. Ég vil sérstaklega þakka Krabbameinsfélagi Íslands fyrir það starf sem félagið hefur innt af hendi, leitinni og rannsóknum, þar eru upplýsingar sem við getum byggt á, þ.e. krabbameinsskráin.

Annað sem ég tel mjög mikilvægt í þessu sambandi er að samhliða þessari vinnu verði opin umræða sem heilbrigðisráðuneytið og fleiri aðilar standi að því að blöðruhálskrabbamein hefur verið feimnismál hjá körlum. (Forseti hringir.) Það má ekki verða það, þetta er dauðans alvara og það verður að hvetja karla til þess að sinna eftirliti rétt eins og við konur eigum að gera hvað varðar brjóstakrabbamein.