136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

afstaða Sjálfstæðisflokksins til aðildar að ESB.

[13:33]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að hafa lesið greinarskrif mín og hv. þingmaður getur ef til vill komið hingað upp síðar og gert nánar grein fyrir Evrópustefnu Framsóknarflokksins, sem mörgum þykir vera býsna óljós um þessar mundir. Ég hef stutt stefnu Sjálfstæðisflokksins í Evrópumálum og tilheyri þeim hópi sjálfstæðismanna sem telur hag Íslendinga best borgið utan Evrópusambandsins.

Á hinn bóginn tel ég að það efnahagslega áfall sem við höfum nú orðið fyrir gefi okkur tilefni til þess að fara að nýju yfir það hagsmunamat sem stefna flokksins í málinu hvílir á og eins og kunnugt er verður landsfundur flokksins haldinn nú í lok janúarmánaðar þar sem Evrópumálin verða m.a. á dagskrá.

Þau mál sem ég tel mikilvægt að fara sérstaklega yfir í því samhengi, með hliðsjón af atburðum síðustu vikna, snúa að því hvernig best verði unnið að öflugri efnahagslegri endurreisn okkar, mikilvægi fullra yfirráða yfir auðlindunum, framtíðarpeningamálastefnu landsins, stöðu EES-samningsins og mikilvægi frekara pólitísks samstarfs við Evrópusambandið fyrir framtíðarhagsmuni okkar. Þetta eru álitaefni sem ég tel að réttlæti það að flokkurinn endurmeti hagsmunamat sitt í þessu máli.

Á sama tíma er ég þeirrar skoðunar að langbest sé til að stuðla að víðtækri sátt um tengsl okkar við Evrópu til framtíðar að þjóðin fái að taka þátt í þeirri ákvörðun með þjóðaratkvæðagreiðslu og þess vegna styð ég að þessum málum verði skipað til framtíðar í samræmi við niðurstöðu þjóðarinnar í því efni. Besti möguleiki þjóðarinnar til að taka skýra afstöðu í málinu liggur fyrir að aðildarviðræðum loknum.