136. löggjafarþing — 60. fundur,  17. des. 2008.

virðisaukaskattur, vörugjald o.fl.

247. mál
[15:47]
Horfa

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum nr. 97/1987, um vörugjald, lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl., og lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt.

Með frumvarpi þessu er lagt til að framlengdar verði um eitt ár þær tímabundnu undanþágur frá vörugjöldum og virðisaukaskatti sem gilda um tiltekin vistvæn ökutæki samkvæmt ákvæðum til bráðabirgða við lög nr. 97/1987, 29/1993 og 50/1988. Að óbreyttu renna umræddar undanþágur út í lok árs 2008.

Nánar tiltekið er í umræddum ákvæðum um að ræða ívilnanir fyrir:

bifreiðar sem búnar eru vélum sem nýta rafmagn að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu,

bifreiðar sem hafa í för með sér hverfandi mengun og eru knúnar óhefðbundnum orkugjafa, svo sem rafhreyfli eða vetni,

bifreiðar sem búnar eru vélum og öðrum búnaði sem miðast við að bifreið nýti metangas að verulegu leyti í stað bensíns eða dísilolíu,

bifreiðar sem aðallega eru ætlaðar til fólksflutninga, sem skráðar eru fyrir 18 manns eða fleiri og búnar eru aflvélum samkvæmt EUROIII staðli ESB.

Einnig eiga hér undir sérhæfðir varahlutir í vetnisbifreiðar sem fluttar eru inn í rannsóknarskyni

Á meðan ekki hefur verið tekin afstaða til þess hvernig staðið skuli að heildarskattlagningu ökutækja og eldsneytis, þar með talið til vistvænna ökutækja, er með frumvarpi þessu lagt til að umræddar undanþágur frá vörugjöldum og virðisaukaskatti verði framlengdar um eitt ár.

Virðulegi forseti. Að þessu sögðu legg ég til að frumvarpi þessu verði vísað til hv. efnahags- og skattanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.