143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

viðvera ráðherra í óundirbúnum fyrirspurnatíma.

[15:46]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Já, það hefur komið fram hjá þremur stjórnarliðum, tveimur hæstv. ráðherrum og einum hv. þingmanni, og forseta sjálfum að hæstv. innanríkisráðherra er annars staðar þó að það hafi verið boðað á vef þingsins í gærdag að hann yrði hér til svara og þingmenn miðuðu sig auðvitað við það.

Það er óheppilegt og ég tel að ráðherrann hefði átt að standa við það fyrirheit sem hann gaf eða einhver fyrir hann vegna þess hvernig þetta mál stendur, vegna þess að þetta er fordæmalaust og vegna þess að ráðherrann, þrátt fyrir að hann mæti ekki hér að tala við þingið, talar við fjölmiðla og á fundum á Héraði og gefur meðal annars þær upplýsingar að rannsókn ríkissaksóknara og lögreglunnar í ráðuneyti hans séu að hans undirlagi sem ríkissaksóknari hefur nú sérstaklega leiðrétt.

Það er full ástæða til að ráðherrann ræði þessi mál sín við þingið án nokkurra dylgna og án nokkurra ásakana vegna þess að (Forseti hringir.) hann situr hér í trausti þingsins en ekki í trausti útvarpsstöðvarinnar Bylgjunnar eða fundar sjálfstæðismanna á Héraði.