143. löggjafarþing — 60. fundur,  10. feb. 2014.

samningur um þátttöku Króatíu á Evrópska efnahagssvæðinu.

288. mál
[16:16]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Fyrst vil ég segja til að útskýra að ég held að reynslan kenni okkur að ekki sé ástæða til að nýta þessar framlengingar. Ég held hins vegar að tíminn verði að sjálfsögðu að leiða í ljós hvort það sé rétt hjá þeim er hér stendur.

Ég vil líka taka fram, af því að hv. þingmaður nefndi þá yfirlýsingu sem hann taldi hafa komið hér fram um að taka upp EES-samninginn, að það er mjög mikilvægt að þau ríki sem koma að EES-samningnum, Ísland, Noregur og Liechtenstein, velti fyrir sér á hverjum tíma hvernig samningurinn hefur reynst og hvernig hann hefur þróast. Ég er ekki þar með að segja að ég telji ástæðu til að breyta samningnum eða að ég ætli að breyta honum í einhverja átt. Það er hins vegar mikilvægt að menn ræði hvernig virkni hans er og hvort eitthvað í samskiptum okkar við Evrópusambandið megi bæta til að gera hlutina skýrari og slíkt. Ef það kemur í ljós á einhverjum tímapunkti að eitthvað í samningnum sé þannig að eðlilegt sé að breyta því tökum við að sjálfsögðu umræðu um það. En ég er ekki að kveikja á þessari umræðu til að fara inn í samninginn og breyta honum sem slíkum. Ég er fyrst og fremst að ræða þetta út frá þeim vandamálum sem við horfumst svo sannarlega í augu við á Íslandi og í þinginu þegar kemur að því að innleiða reglur og annað á grundvelli þessa samnings. Það er það sem við þurfum að skoða.

Hv. þingmaður eyddi nokkrum tíma af ræðu sinni í að ræða Evrópusambandið og Bretland og þá langar mig að nefna að núna í Þýskalandi er kominn nýr stjórnmálaflokkur sem hefur það m.a. að markmiði í stefnuskrá sinni að Þýskaland eigi að hætta með evruna. Og furðulegt nokk mælist sá stjórnmálaflokkur með það mörg prósent, mig minnir í kringum 7% en ég ætla ekki að fullyrða það, að yrði það niðurstaða kosninga væri hann kominn með menn inn á þing. Menn eru því víða um Evrópu að velta fyrir sér hvernig Evrópusambandið stendur og hvernig það þróast, meira að segja í þeim ríkjum sem teljast vera stofnaðilar eða aðalríki Evrópusambandsins.

Í Hollandi eru menn að velta fyrir sér nákvæmlega því sama og vilja skoða hvort ástæða sé til að draga úr þeim völdum sem hafa myndast og safnast saman í Brussel og færa eitthvað af þeim aftur til ríkjanna. Það er mikil gerjun í þessu bandalagi öllu saman.

Úr því að hv. þingmaður af gæsku sinni talaði um fyrri ræður utanríkisráðherra þá hefur ekkert breyst þar. Það er enn þá mitt mat og ekki bara mat, það er það sem ég hef lesið mér til, að það er ekki hægt að fá varanlegar undanþágur hjá Evrópusambandinu. Það eru hins vegar til tímabundnar undanþágur. Það er það sem við lesum í þessu frumvarpi, dæmi um tímabundnar undanþágur. Hér stendur m.a. að Króatía fær aðlögunartíma þegar kemur að umhverfismálum. Króatía fær tímabundna heimild út af farþegaskipum af ákveðinni stærð, og svo fær Króatía frest eða aðlögun varðandi landbúnaðarlöggjöf sem er mest hægt að framlengja í tíu ár. Sú undanþága eða sá aðlögunarfrestur getur orðið tíu ár, ekki meira.

Enn og aftur sjáum við samkvæmt þessu frumvarpi og þeim samningi sem Króatía er að gera að ekki er boðið upp á varanlegar undanþágur. En það er það sem við höfum sagt að Ísland þyrfti á að halda.

Hv. þingmaður spurði um Þróunarsjóð EFTA. Ef ég man rétt, en með fyrirvara, greiða Norðmenn líklega yfir 90%, 95% af því sem fer í þennan sjóð. Það eru miklir fjármunir. Við höfum hins vegar séð að þessum sjóði fylgja ýmis tækifæri þó að honum fylgi líka ákveðinn kostnaður fyrir Ísland. Íslensk orkufyrirtæki og verkfræðistofur hafa til dæmis verið að keppast um að fá verkefni úr þessum sjóði í Rúmeníu, í Ungverjalandi og eru með verkefni jafnvel í Króatíu þannig að þessi sjóður skilar okkur, að ég held, meiru en við leggjum í hann þó svo að þeir tollkvótar eða þær undanþágur sem við fáum í gegnum þetta borgi það ekki allt upp.

Ég vil að lokum þakka fyrir þessa umræðu. Það er gott að við séum að fjalla um EES-samninginn þegar við ræðum þessi mál öllsömul því eins og kom fram í andsvari hv. þm. Árna Þórs Sigurðssonar er okkur hollt að ræða hann. Það er eðlilegt að hann sé gagnrýndur. Það er líka eðlilegt að menn rísi upp honum til varnar því þetta er samningur sem tryggir okkur aðgang að hinum sameiginlega markaði Evrópu.