144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

framlög til háskólastarfs.

255. mál
[16:15]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Mig langar að taka hér upp málefni aldarafmælissjóðs Háskóla Íslands í samhengi við almenn framlög til háskólastigsins og beini fyrirspurninni til hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra.

Svo ég rifji aðeins upp söguna þá var það svo að Háskóli Íslands fagnaði 100 ára afmæli sínu árið 2011 og var þá settur á laggirnar svokallaður aldarafmælissjóður. Í kjölfarið var sett á laggirnar nefnd þar sem sátu fulltrúar frá Alþingi, forsætisráðuneyti, fjármálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og Háskóla Íslands sem gerði svo tillögur um hvernig framlög til rannsókna í aldarafmælissjóðinn ættu að þróast á árunum 2012 til 2020. Markmið sjóðsins átti að vera að efla rannsóknir og nýsköpun sem mundi nýtast til uppbyggingar atvinnulífs og verðmætasköpunar í þágu íslensks samfélags og þjóðar.

Nú þarf ég ekki að tala lengi um það hversu gríðarlega mikilvægt það er fyrir samfélagið að hér séu stundaðar öflugar rannsóknir og nýsköpunarstarf og vísindastarf í Háskóla Íslands en líka í öðrum háskólum og öðrum vísindastofnunum og rannsóknarstofnunum. Það skiptir máli fyrir atvinnulífið að búa að vel menntuðu fólki en líka að hér séu stundaðar öflugar grunnrannsóknir sem nýtast svo sem grunnur að hagnýtari rannsóknum í ýmsum greinum. Og oft er það svo, svo ég nýti nú tækifærið, að það er ekki fyrirsjáanlegt hvaða rannsóknir muni nýtast. Þannig þótti mörgum sá fræðimaður sem fann upp tvíundakerfið sem er undirstaða allrar forritunar í nútímanum — Boole hét sá — vera fullkomlega á villigötum með sitt rannsókna- og vísindastarf, að vera að búa til eitthvert rökfræðikerfi sem engum raunverulegum tilgangi þjónaði. (Gripið fram í.) Það kom á daginn síðar meir, mörgum áratugum síðar, að það er undirstaða allrar nútímatölvutækni. Er þetta ekki rétt hjá mér, hv. þingmaður?

Grunnrannsóknir skipta því gríðarlegu máli. Áðurnefndur vinnuhópur gerði tillögur um að framlögin yrðu stóraukin og markmiðið ætti að vera að framlög til háskólastigsins mundu þróast þannig að Ísland næði í fyrsta lagi svokölluðu meðaltali OECD til háskóla árið 2016 og síðan árið 2020 værum við komin nærri meðaltali framlaga til háskólastarfs annars staðar á Norðurlöndum. Þar höfum við því miður verið eftirbátar mörg ár aftur í tímann, hvort sem litið er til fyrir kreppu eða eftir kreppu. Við vitum það auðvitað að ástandið batnaði ekki í kreppu. En nú ættum við að vera farin að horfa fram á veginn.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvernig þessari yfirlýsingu hafi verið fylgt eftir og hvernig hann sér fyrir sér þróun framlag til háskólastigsins til ársins 2020, hvort enn þá sé unnið samkvæmt því sem vinnuhópurinn lagði til á sínum tíma og heyra síðan hvernig hæstv. ráðherra sér fyrir sér að framlögin þróist annars vegar til aldarafmælissjóðsins (Forseti hringir.) og hins vegar til háskólastigsins alls.