144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

383. mál
[17:16]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Það sem þetta mál snýst um er mjög einfalt í raun og veru. Í fyrsta lagi það sem nú er verið að gera með því frumvarpi sem fyrir liggur, og verður vonandi afgreitt bráðlega sem lög frá Alþingi, sem mun hafa það í för með sér að kostnaður milli þéttbýlissvæðanna og dreifbýlissvæðanna á þessum köldu svæðum verður jafnaður að fullu. Þá erum við búin að ná einum áfanganum, kannski þeim allra brýnasta vegna þess að kostnaðurinn er mestur í dreifbýli og jafnvel meiri en á þéttbýlisstöðunum á hinum svokölluðu köldu svæðum.

Þá er hitt eftir að ljúka því sem ætlunin var að gera með þeirri þverpólitísku nefnd sem vísað var til hér áðan og það felur í sér að jafna dreifingarkostnaðinn á orkunni, ekki að jafna að fullu orkukostnaðinn heldur eingöngu að segja sem svo að við ætlum öll, landsmenn, að bera þennan dreifingarkostnað og þannig að skila, má segja, orkunni með sama hætti til allra landsmanna. Það er áfangi sem þarf síðan að taka núna í framhaldinu og það er það sem hæstv. ráðherra var meðal annars að vísa til. Þess vegna fagna ég yfirlýsingu hennar og þeirra (Forseti hringir.) annarra sem hafa lýst stuðningi við þessi áform.