148. löggjafarþing — 60. fundur,  8. maí 2018.

markaðar tekjur.

167. mál
[16:21]
Horfa

Ólafur Ísleifsson (Flf):

Frú forseti. Það er eðlilegt að spurt sé um undirbúning þessa máls á vettvangi stjórnsýslunnar. Ég mun koma að því í síðari hluta ræðu minnar. Það eru tvenns konar meginsjónarmið sem búa að baki því frumvarpi sem hér liggur fyrir um markaðar tekjur. Eins og fram kemur í fyrirliggjandi gögnum málsins er annars vegar talið æskilegt að draga úr hinni víðtæku mörkun ríkistekna sem lengi hefur tíðkast og gera það með það að markmiði að einfalda og styrkja fjárstjórnarvald Alþingis og fjármálastjórn stjórnsýslunnar og svo til þess að draga úr ógagnsæi og sveiflum sem þetta fyrirkomulag veldur í fjárreiðum þeirra aðila sem tekjurnar renna til.

Á hinn bóginn mælir 51. gr. laga um opinber fjármál, sem mynda hina þýðingarmiklu umgjörð um fjármál ríkissjóðs, leyfi ég mér að segja, fyrir um að tekjur aðrar en rekstrartekjur stofnana færist eingöngu sem ríkistekjur. Frumvarpinu er því ætlað að breyta ákvæðum fjölmargra sérlaga til samræmis við lög um opinber fjármál. Með mörkuðum tekjum er átt við lögþvingaðar ríkistekjur sem samkvæmt sérlögum eru eyrnamerktar til að standa undir kostnaði við tiltekna málaflokka, verkefni eða stofnanarekstur. Annars vegar er um að ræða skatttekjur sem ráðstafað er til tiltekinna verkefna án þess að veitt sé þjónusta á móti tekjunum og hins vegar aðrar rekstrartekjur ríkissjóðs sem einnig eru lögþvingaðar en þá er skilyrt að á móti komi þjónusta stofnunarinnar. Markaðar tekjur eru af margvíslegum toga og eru tilgreindar í fjölda sérlaga; í ríkisreikningi ársins 2016 kemur fram að í heild eru 125,7 milljarðar kr. markaðir 60 mismunandi fjárlagaliðum og viðfangsefnum á gjaldahlið fjárlaga.

Taka ber undir þau markmið sem fyrirliggjandi frumvarp styðst við og lúta að fjárstýringu ríkisins. Meðal þeirra markmiða má nefna að ákvarðanir um ráðstöfun á ríkistekjum verða einungis teknar í fjárlögum og fjáraukalögum. Heimildir sem veittar hafa verið eftir á í lokafjárlögum munu heyra sögunni til. Eytt verður óvissu um hverjar séu fjárheimildir stofnana á fjárlagaárinu. Útgjaldavöxtur í gegnum sjálfvirkt streymi ríkistekna til stofnana leggst af. Allt þetta einfaldar fjárlagagerð og skylda þætti. Með þessu er markmiðið að styrkja og einfalda fjármálastjórn ríkisstofnana og ríkisins í heild. Þetta er fallið til þess að styðja við, efla og treysta fjárstjórnarvald Alþingis.

Það samrýmist ekki fjármálastjórn rammafjárlagagerðar, sem svo er nefnd, sem miðar að því að halda útgjöldum innan fyrirframákveðins útgjaldaramma, að fjárheimildum stofnana sé breytt eftir á, í lokafjárlögum, út frá reikningsuppgjöri markaðra tekna liðins árs í stað þess að þær haldist í hendur við þá áætlanagerð og forgangsröðun sem ákveðin var í fjárlögum. Alþjóðastofnanir, svo sem Efnahags- og framfarastofnunin OECD í París og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn í Washington hafa bent á að umfang markaðra tekna hérlendis sé mun meira en almennt gengur og gerist í nágrannalöndum okkar. Í skýrslu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, með tillögum um nýja rammalöggjöf um opinber fjármál, kemur fram að um 17% af ríkisútgjöldum eru fjármögnuð með sértekjum eða mörkuðum tekjum sem er næsthæsta hlutfallið meðal fjölmargra ríkja samkvæmt könnun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Innleiðingaráætlun laga um opinber fjármál miðast, eins og kunnugt er, við að það taki allt að þrjú ár að innleiða reikningshaldshluta laganna að fullu. Frumvarp þetta er hluti af því ferli og er í nefndaráliti fjárlaganefndar gert ráð fyrir að á innleiðingartímanum komi fram annað frumvarp um afnám markaðra tekna þeirra gjaldaliða sem ekki eru tilteknir í þessu frumvarpi. Hér er einkum um að ræða markaðar tekjur tengdar vinnumarkaðnum.

Tekið er fram í nefndaráliti að fjárlaganefnd telji að samráð við aðila vinnumarkaðarins hefði mátt vera meira við undirbúning frumvarpsins. Ákvæði um mörkun tryggingagjalds eru oft komin til í tengslum við gerð kjarasamninga í því skyni að fjármagna réttindi launafólks og tengjast samkomulagi milli ríkisins og aðila vinnumarkaðarins.

Frumvarpið tekur að miklu leyti tillit til þessara sjónarmiða með því til dæmis að ekki eru lagðar til breytingar á mörkum tekna Atvinnuleysistryggingasjóðs, Fæðingarorlofs- eða Tryggingarsjóðs sjálfstætt starfandi einstaklinga. Leggur nefndin, eins og framsögumaður tók fram, til tvær breytingartillögur í því skyni að koma til móts við sjónarmið aðila vinnumarkaðarins.

Ástæða er til þess að vekja athygli á að að mati nefndarinnar ber frumvarpið með sér að um málamiðlun sé að ræða. Í nokkrum tilfellum er mörkunin ekki afnumin að fullu en þess í stað tekið fram að fjárveiting skuli að lágmarki nema áætlun fjárlaga um innheimtu þess gjalds sem í hlut á. Þá er ástæða til að benda á að nefndin telur ekki fullt samræmi vera í frumvarpinu að því leyti að enn er viðhaldið mörkun á nokkrum veigamiklum liðum eins og áður getur, svo sem Atvinnuleysistryggingasjóði og Fæðingarorlofssjóði. Fjárlaganefnd lýsir í nefndaráliti sínu að hún telji að áður en mörkun tekna verði afnumin að fullu sé nauðsynlegt að stjórnvöld fari vandlega yfir öll álitamál með aðilum. Segir í nefndaráliti að eftir sem áður sé óhjákvæmilegt að leiðrétta misræmi sem nú er milli laga um opinber fjármál og ýmissa sérlaga um markaða tekjustofna til að tryggja að uppgjör ríkisreiknings samræmist ákvæðum sérlaga.

Ástæða er til, frú forseti, að geta allþungrar gagnrýni á einstaka þætti í frumvarpinu í umsögn af hálfu Ríkisendurskoðunar. Athugasemdir Ríkisendurskoðunar lúta meðal annars að tryggingagjaldi, meðferð þess og skilgreiningu, og að í nokkrum tilfellum virðist, eins og komist er að orði, sem verið sé að afnema mörkun tekna hjá einstökum aðilum en þegar grannt er skoðað kemur í ljós að svo er ekki að dómi stofnunarinnar. Hér ræðir um Íslandsstofu, Fjármálaeftirlitið og Ábyrgðasjóð launa. Að þessu leyti sést að frumvarpið hefði þurft betri undirbúning af hálfu ráðuneytis til að ljúka hefði mátt í einum áfanga því viðfangsefni sem hér er uppi, að afnema mörkun tekna í ríkisbúskapnum og styrkja með því enn frekar fjárstjórnarvald Alþingis. Fjárlaganefnd telur nauðsynlegt að leggja til að þegar nauðsynlegri undirbúningsvinnu verði lokið, vinnu sem ætti að vera lokið nú þegar, leggi fjármála- og efnahagsráðherra fram frumvarp þar sem ákvæði sem eftir standa um markaðar tekjur verði felld brott. Ítrekar nefndin í því sambandi að ekki er ætlun löggjafans að frumvarpið leiði til þess að fjárheimildir hlutaðeigandi gjaldaliða verði sérstaklega lækkaðir heldur miðist fjárheimildir við forgangsröðun einstakra ráðuneyta á fjárhagsramma hverju sinni.

Þetta mál á þess vegna að líkindum eftir að koma aftur til kasta Alþingis sökum þess að það kemur að þessu sinni ófullbúið í veigamiklum atriðum. Betra hefði verið að komast hjá þessum málatilbúnaði enda ekki að vita hvaða draugar kunna að vekjast upp þegar það verður tekið upp að nýju. Þeir draugar gætu sem best haft til að bera þær glyrnur sem Glámur hafði, að dragi úr mönnum allan mátt. Málið gæti allt eins færst á byrjunarreit. Væri þá verr af stað farið en heima setið í þessu máli sem hefur, eins og áður segir, það þýðingarmikla markmið að treysta í sessi og efla fjárstjórnarvald Alþingis.