149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

endurskoðun framfærsluviðmiða LÍN.

[10:39]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Hæstv. forseti. Nú fyrr í vikunni lýsti hæstv. mennta- og menningarmálaráðherra því afdráttarlaust yfir að lánasjóðskerfið yrði endurskoðað og hún myndi ætla sér að hækka framfærslugrunn LÍN sem í dag er rúmar 185.000 kr. á mánuði, hækka á frítekjumarkið sem er í dag um 930.000 kr. á ári og síðan á að auki að hækka framfærsluþörfina upp í 100%, þ.e. fara úr 96% upp í 100%.

Það kom reyndar ekki algerlega fram hversu mikil hækkunin á að vera, en metnaðurinn er mikill og það er mikið fagnaðarefni. Hún er kannski ekki eini menntamálaráðherrann sem hefur sýnt mikinn metnað í því að endurskoða lánasjóðskerfið, það gerðu bæði Katrín Jakobsdóttir sem menntamálaráðherra á sínum tíma og ekki síður Illugi Gunnarsson sem umbylti í rauninni svolítið fyrri hugmyndum, setti fram mjög athyglisverðar hugmyndir sem fólu í sér miklar réttarbætur fyrir námsmenn. Búið er að boða frumvarp í haust sem tekur vonandi á þessu og við munum örugglega taka því fagnandi.

Ég vil hins vegar spyrja hæstv. fjármálaráðherra: Er búið að tryggja þessa hækkun á framfærsluviðmiði námslána líkt og boðað hefur verið? Og ef fjármálaráðherra gæti sagt okkur hvernig það yrði útfært væri ég þakklát.

Í öðru lagi: Er tryggt að námslán séu þá í samræmi við atvinnuleysisbætur eða lágmarkslaun og greitt verði út 100% af reiknaðri framfærslu nemenda?

Í þriðja lagi: Mun fjármálaráðuneytið styðja menntamálaráðherra í að hækka frítekjumark lánþega og stuðla þannig að því að námsmenn geti starfað á sumrin án þess að námslán þeirra skerðist verulega?