149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

vestnorræna ráðið 2018.

529. mál
[12:17]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið. Þetta er einstakt samstarf á margan hátt eins og virðulegur forseti rakti. Þarna eiga sér stað umræður í hópi annars vegar fullvalda þjóðar og hins vegar þjóða sem eiga undir öðrum æðri aðila dálítið mikið. Samstarfið er farsælt. Þarna eru persónuleg kynni ríkur þáttur og það er það sem ræður úrslitum í mörgum tilvikum, eins og hv. þingmaður þekkir í gegnum langa reynslu við lausn mála. Það þarf meira en formsatriði, það þarf meira en fundi embættismanna og stjórnmálamanna; það eru persónuleg kynni og persónulegt traust. Samstarfið hefur verið farsælt á marga lund. Okkur þykir vænt hverju um annað. Þetta er eins og stór fjölskylda. Það er kannski ódýr klisja en það er samt þannig.

En svo koma atriði þar sem við erum samkeppnisaðilar. Við erum að keppa á atvinnumarkaði, eins og í fiskiðnaðinum þar sem miklir hagsmunir eru í húfi og þar missa menn kannski eitthvað fótanna og missa einbeitinguna og hafa kannski ekki þá sameiginlegu sýn sem við þurfum að hnykkja stöðugt á. Þess vegna leggjum við áherslu á að Vestnorræna ráðið, varlega en með markvissum hætti, (Forseti hringir.) nálgist á formlegan hátt það vandamál sem núna er uppi í samskiptum. Við veltum fyrir okkur líka: Eigum við kannski að útvíkka samstarfið til að þrjár (Forseti hringir.) þjóðir geri með sér fríverslunarsamband? Það gerðist ekki (Forseti hringir.) þegar Hoyvíkursamningur varð til. Hv. þingmaður getur kannski (Forseti hringir.) upplýst okkur um ástæður þess.

(Forseti (JÞÓ): Forseti minnir þingmenn á að halda ræðutíma.)