149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

vestnorræna ráðið 2018.

529. mál
[12:20]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að ástæða þess að Grænlendingar treystu sér ekki inn í svo víðtækan fríverslunarsamning sem Hoyvíkursamningurinn er hafi fyrst og fremst verið sú að þeir töldu sig vanbúna til þess og ekki tilbúna í slíkt samstarf. Kemur þar auðvitað margt til. Tolla- og skattkerfi þeirra er á talsvert öðrum stað en okkar o.s.frv.

Ég held að það sé ákaflega mikilvægt að leggja áherslu á langtímagildi og langtímaverðmæti sem er fólgið í þessu sambandi þegar upp koma tímabundin vandamál sem þarf að takast á við. Hættan er sú að stjórnmálamennirnir verði of staðbundnir, of þröngir, og horfi bara á hlutdeild sína í kvóta einhverrar einnar fisktegundar eða hvað það er, í staðinn fyrir að horfa á samlegðaráhrifin og verðmæti sem er fólgið í því fyrir grannlönd að vinna vel saman. Það er svo miklu og margfalt verðmætara fyrir löndin. Við getum tekið þar ferðaþjónustuna og samlegðaráhrifin af því að hún byggist upp og eflist. Það er mikið í það að sækja fyrir Grænland, og eftir atvikum líka Færeyjar, hvað uppgangurinn hefur orðið mikill í ferðaþjónustu á Íslandi, því að ákveðið yfirfall er héðan þangað o.s.frv. Það þarf að horfa á þetta svona.

Ég vil líka nefna, og tala af hreinskilni um það, að það hefur alltaf haft nokkur áhrif á mig og stýrt mér að þarna erum við Íslendingar að vinna með, ekki bara grannþjóðum okkar, heldur líka þjóðum sem eru á leið til aukins sjálfstæðis og eru að sækja sér aukna sjálfstjórn og heimastjórn og hafa það að markmiði, a.m.k. margir hverjir í stjórnmálum landanna, að þau eigi að enda sem sjálfstæð ríki. Og það stendur auðvitað okkur Íslendingum ákaflega nærri, sem eru ekki lengra í burtu frá því að við fengum okkar fullveldi en 100 árum, að vera (Forseti hringir.) frekar hjálplegir í slíkum tilvikum en hitt.