149. löggjafarþing — 60. fundur,  31. jan. 2019.

norðurskautsmál 2018.

526. mál
[13:41]
Horfa

Líneik Anna Sævarsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Við ræðum um starf þingmannanefndar um norðurskautsmál í kjölfar skýrslu fyrir starfið á árinu 2018. Þingmannanefndin er samstarfsvettvangur þingmanna aðildarríkja Norðurskautsráðsins. Eins og fram er komið var árið 2018 ráðstefnuár á þessum samstarfsvettvangi en slíkar ráðstefnur eru haldnar annað hvert ár. Ráðstefnan var sú þrettánda á þessum vettvangi og sú þriðja sem ég sæki. Slíkar ráðstefnur eru mikilvægar.

Á dagskrá er fjöldi hagsmunamála sem eru sameiginleg ríkjunum kringum norðurskautið og fólkinu sem þar býr. Á ráðstefnunum kemur saman stór hópur þingmanna og sérfræðinga frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum auk frumbyggja af svæðunum sem láta sig málefni norðursins varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er jafnframt að fylgja eftir samþykktum þessara ráðstefna. Þýðing starfsins felst ekki síst í því að í gegnum starfið eru málefni norðurslóða stöðugt á dagskrá auk þess sem, eins og margir fyrri ræðumenn hafa komið inn á í dag, persónuleg tengsl myndast.

Áherslur í þessu starfi lúta einkum að sjálfbærri þróun og umhverfis- og náttúruvernd en einnig er vaxandi áhersla á þekkingu á menningararfleifð og lífsháttum norðlægra þjóða og hvernig sú þekking getur nýst til að styrkja nútímasamfélag. Þá er aukin efnahagsleg og félagsleg velferð íbúa norðursins stöðugt á dagskrá og hvernig miðla má reynslu og þekkingu milli landa á því sviði. Ráðstefnurnar tryggja að innan allra þjóðþinganna kringum norðurskautið séu tilteknir þingmenn með umfangsmikla þekkingu á hagsmunum norðurslóða.

Þessi málefni hafa vissulega mismikið vægi eftir löndum, eins og formaður nefndarinnar, hv. þm. Ari Trausti Guðmundsson, kom inn á áðan. Hann fór líka yfir það að á ráðstefnu síðasta árs voru fjögur þemu til umfjöllunar og fékk ég tækifæri til að stýra fundi um þemað samfélagsleg ábyrgð fyrirtækja. Ég er þeirrar skoðunar að þegar verið er að byggja upp nýja starfsemi til að nýta auðlindir norðurslóða sé víða hægt að ná miklu betri árangri í samþættingu við þau samfélög sem þar eru fyrir. Þar þurfa fyrirtæki að setja sér mun skýrari markmið og byggja upp sýn á það hvernig má stuðla að sjálfbærri nýtingu auðlinda jafnframt því að byggja upp sjálfbær samfélög í umgengni við auðlindir, með skipulagi í vinnutíma, jafnréttisstefnu, stefnu varðandi kaup á þjónustu og ýmsa aðra þætti. Þarna gætum við Íslendingar lært, en við gætum líka miðlað af reynslu.

Meðal málefna sem eru rædd á fundum nefndarinnar og á ráðstefnum eru umhverfismál og varnir gegn mengun á landi og í sjó. Loftslagsmálin eru rædd, velferð, geðheilbrigðismál, félagsþjónusta, forvarnir gegn vímuefnanotkun og sjálfsvígum, rætt er um mælikvarða á velferð og fleira. Jafnréttismálin eru rædd. Uppbygging innviða hefur oft fengið töluvert rými og fróðlegt er að átta sig á áskorunum okkar í að byggja t.d. upp vegasamgöngur í samhengi við að byggja upp vegasamgöngur á norðurslóðum Kanada og Rússlands. Við getum bætt kannski tveim núllum aftan við allar okkar áskoranir þar, bæði í vegalengdum og fjármunum. Þessi samanburður hefur líka sannfært mig um hversu miklu það hefur skipt fyrir okkar velferð að hafa stöðugt lagt áherslu á að byggja upp góðar samgöngur um land allt. Einnig er rætt um orkuöflun, dreifingu og notkun orku og uppbyggingu innviða í því samhengi.

Eins og hv. þm. Björn Leví Gunnarsson kom inn á áðan voru stafrænar lausnir til umfjöllunar og skipta vissulega mjög miklu máli á norðurslóðum, þ.e. aðgangur að góðum nettengingum og nægilegri flutningsgetu, aðgangur að gervihnöttum, og ýmislegt annað fellur þar undir, auk tæknilegra lausna varðandi tungumálin og fleira. Menntun, miðlun og öflun alþjóðlegrar og staðbundinnar þekkingar kemur á dagskrá, rannsóknir, öryggi og björgun og þannig mætti lengi telja.

Þá var á síðasta ári nokkuð rætt um áskoranir við að fylgja samþykktum þingmannaráðstefnunnar eftir og hvernig það væri best gert. Niðurstaðan var að auk þess að koma samþykktum á framfæri eftir formlegum leiðum þyrftu fulltrúar að vera duglegir að nýta sem flest tækifæri til að koma á framfæri upplýsingum um starfið. Árangur ráðstefnunnar fælist m.a. í því sem þátttakendur tækju með heim og miðluðu.

Fyrir utan formlega dagskrá ráðstefnunnar fannst mér mjög áhugavert að kynnast áherslum Finna á verklegt og bóklegt nám til að miðla hefðum Sama. Þarna er mikið lagt í nám í dreifðum byggðum sem tiltölulega fáir sækja. Bæði er námið á framhaldsskólastigi og boðið sem símenntun. Þar með er menningu viðhaldið, tækifæri gefast til að þróa og hanna nýtt og nýta í nútímasamfélagi. Það er auk þess mikilvægur liður í að viðhalda sjálfstrausti og sjálfsmynd samfélaga og þar með velferð.

Ég held að við þurfum að vera vakandi fyrir sambærilegu námsframboði hér á landi. Sambærilegu námi hefur að einhverju leyti verið sinnt í hússtjórnarskólum, í tengslum við landbúnaðarháskólana, í símenntun áhugafélaga og sjálfseignarstofnana og einstökum áföngum í framhaldsskólum. Mætti þar t.d. nefna þjóðbúningasaum í Menntaskólanum á Ísafirði.

Á fyrstu árum sínum vann þingmannanefndin ötullega að stofnun Norðurskautsráðsins og fyrsta ráðstefnan var, eins og áður sagði, haldin í Reykjavík 1993.

Mikilvægt áherslusvið í samvinnu á norðurslóðum er að efla það samstarf háskóla sem stuðlað getur að fræðslu og rannsóknum á þeim ferlum í samfélagi og náttúru sem tengjast sjálfbærri þróun. Háskóli norðurslóða byggir á slíkum grunni og þar eru Háskólinn á Akureyri og Stofnun Vilhjálms Stefánssonar á Akureyri í lykilhlutverkum fyrir hönd okkar Íslendinga. Við Háskólann á Akureyri er starfrækt prófessorsstaða í heimskautafræðum sem kennd er við Fridtjof Nansen. Aðrir íslenskir háskólar og ýmsar stofnanir sinna rannsóknum og verkefnum tengdum norðurslóðasamstarfinu og hagsmunum á norðurslóðum og mynda Norðurslóðanet Íslands.

Hér langar mig sérstaklega að gera að umtalsefni Rif, sem er vaxtarsproti í neti rannsóknastöðva á norðurslóðum. Þessar stöðvar mynda net sem sinna vöktun og bjóða fram aðstöðu til rannsókna allan hringinn í kringum norðurskautið. Rannsóknastöðin Rif hóf starfsemi á árinu 2014 og er henni ætlað að skapa jarðveg fyrir rannsóknir og þekkingaröflun sem byggir á náttúrulegri sérstöðu Melrakkasléttu, en Melrakkaslétta er aðgengilegasta landsvæði á Íslandi sem skilgreint er sem heimskautasvæði, með leyfi forseta, Low Arctic, en miklir alþjóðlegir og íslenskir hagsmunir felast í því að vakta þróun náttúrunnar á þeim stað sem tilheyrir heimskautinu.

Á hinn bóginn er stöðin dæmi um vel heppnað verkefni þar sem hagsmunir samfélagsins á Melrakkasléttu, þar með talið Raufarhöfn, mæta alþjóðaþekkingarsamfélaginu og skapa ný tækifæri þar sem staðbundin þekking mætir alþjóðlegri. Verkefnið er sprottið frá íbúum á svæðinu í gegnum verkefnið Brothættar byggðir. Þar kemur að því sem kom fram í samtali hv. þingmanna Bryndísar Haraldsdóttur og Ara Trausta Guðmundssonar fyrr í umræðunni um mikilvægi miðlunar og þekkingar.

Ég hef upplifað í gegnum starfið að ákveðinn veggur er á milli tungumála, einkum á milli enskumælandi heims og rússneska heimsins, en einnig er ákveðin þekking kannski lokuð inni í frumbyggjatungumálum á svæðunum. Þarna er mjög mikilvægt, og er eitt af því sem ég tek út úr þessari umræðu, að þarna er verk að vinna fyrir nefndina.

Að lokum langar mig að nefna að síðar á þessu ári tekur Ísland við formennsku í Norðurskautsráðinu af Finnum og um það hafa ríkin átt náið samstarf síðustu tvö árin. Núna í janúar var t.d. haldin ráðstefna á Akureyri um málefni norðurslóða sem var liður í dagskránni, tengdum formannaskiptunum.

Ég þakka að lokum samstarfið í nefndinni og vinnu ritara nefndarinnar. Þetta er gefandi og árangursríkt starf.