150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

íslenskur ríkisborgararéttur.

252. mál
[15:38]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Birgir Ármannsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir nefndaráliti allsherjar- og menntamálanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um íslenskan ríkisborgararétt. Málið hefur fengið allnokkra umfjöllun á vettvangi nefndarinnar og hún fengið til sín ýmsa gesti og fengið umsagnir eins og greint er í nefndarálitinu. Eins og segir í texta nefndarálitsins eru með frumvarpinu lagðar til breytingar á ákvæðum laga um íslenskan ríkisborgararétt sem varða skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Aðallega eru lagðar til breytingar á ákvæðum laga um biðtíma vegna sektarrefsingar. Markmið frumvarpsins er að auka skilvirkni, gagnsæi og skýrleika laganna.

Í nefndarálitinu segir enn fremur að með frumvarpinu sé lagt til að felld verði brott þau skilyrði fyrir veitingu ríkisborgararéttar að brot megi ekki vera endurtekið auk þess sem sektarfjárhæðir eru hækkaðar til samræmis við þróun verðlags. Nefndin telur, eins og segir hér, um einstaklega mikilvægar breytingar að ræða sem sanngjarnt sé að gera gagnvart umsækjendum um ríkisborgararétt. Til upprifjunar má geta þess að sektarfjárhæðir hafa hækkað umtalsvert frá því lögin voru sett þannig að þeim tilvikum hefur fjölgað þar sem umsækjendur um ríkisborgararétt hafa rekist á hindranir að þessu leyti.

Í nefndarálitinu segir svo:

„Fyrir nefndinni komu fram sjónarmið þess efnis að æskilegt væri að við lög um íslenskan ríkisborgararétt yrði bætt heimild til að víkja frá þeim skilyrðum að umsækjandi sanni á sér deili og framvísi erlendu sakavottorði þegar sérstaklega standi á. Nefndin telur að sanngjarnt sé að gera slíkar undanþágur í afmörkuðum tilvikum þar sem aðstæður séu óvenjulegar. Undanþáguheimildin væri þá ætluð umsækjendum sem væri ómögulegt aðstöðu sinnar vegna að útvega fullnægjandi gögn um auðkenni eða sakavottorð en uppfylltu önnur skilyrði laganna fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Sem dæmi má nefna flóttafólk sem hlotið hefur alþjóðlega vernd sökum ofsókna af hálfu stjórnvalda í heimaríki eða flóttafólk frá stríðshrjáðum svæðum þar sem innviði skortir. Nefndin leggur til að ákvæði um að heimilt sé að víkja frá framangreindum skilyrðum þegar ríkar sanngirnisástæður mæla með því verði bætt við frumvarpið.“

Loks segir í nefndarálitinu að í frumvarpinu sé lagt til að sett verði ákvæði um endurveitingu ríkisfangs þeim til handa sem misst hafa íslenskt ríkisfang samkvæmt 7. gr. laga nr. 100/1952 en hefðu haldið því hefði greinin verið fallin úr gildi á þeim tíma sem þeir misstu ríkisfangið. Nefndin fjallaði um ákvæðið og telur að um jákvæða breytingu sé að ræða, þá sérstaklega að ákvæðinu sé ætlað að standa ótímabundið. Loks leggur allsherjar- og menntamálanefnd til nokkrar breytingar sem telja má tæknilegs eðlis.

Um afgreiðslu málsins var ágæt sátt í hv. allsherjar- og menntamálanefnd og rita allir nefndarmenn undir álitið. Auk þess sem hér stendur eru það Páll Magnússon, formaður nefndarinnar, Anna Kolbrún Árnadóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, Guðmundur Andri Thorsson, Halla Gunnarsdóttir, Helgi Hrafn Gunnarsson, með fyrirvara, Jón Steindór Valdimarsson og Þórarinn Ingi Pétursson.