150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

neytendalán og aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

582. mál
[16:40]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Ég ætla að lengja umræðuna aðeins. Það er mikilvægt, tel ég, að það komi fram hér við þessa umræðu að það er mjög mikil eindrægni í hv. efnahags- og viðskiptanefnd þegar kemur að þessu máli. Sú vinna og þær umræður sem fram hafa farið í nefndinni vegna málsins eru í raun allar í sömu átt og hv. þingmenn sem hér hafa talað á undan mér hafa margir hverjir komið inn á það. Það er rétt að nefna að vinna hv. þingmanna Bryndísar Haraldsdóttur og Oddnýjar G. Harðardóttur í málinu hér fyrir áramót var að mínu mati til fyrirmyndar, samvinna þeirra í málinu, og lendingin að því leyti betri en hún hefði ella orðið. En eins og hv. þm. Smári McCarthy kom inn á áðan standa ákveðin atriði út af, einkum og sér í lagi með þessa auðkenningu. Það er eitthvað sem við ætlum að laga eftir ábendingum utan úr bæ.

Eins og hæstv. forseti hefur vafalítið tekið eftir hafa menn notað tækifærið í umræðunni til að ræða þessi mál í örlítið víðara samhengi en akkúrat frumvarpið er enda tel ég, og er sammála þeim þingmönnum sem hafa rætt um það, að umræða um þessi mál, þ.e. um neytendalán af þessu tagi, það sem við höfum í daglegu tali kallað smálán, er býsna mikilvæg. Það eru nokkur atriði sem þar eru mikilvæg, m.a. þetta með árlega hlutfallstölu kostnaðar sem skiptir verulegu máli, þ.e. hvað raunverulega er verið að borga fyrir að fá lánaða peninga ef til grundvallar væri lán til heils árs. Á sama hátt er vaxtaprósentan einnig mikilvæg og hv. þm. Óli Björn Kárason kom ágætlega inn á það hér áðan hver munurinn á þessu tvennu væri og kannski ekki ástæða til að ræða það frekar.

Það sem hins vegar mætti ræða meira um er í raun það sem ég vil kalla það samfélagsólán eða samfélagsmein sem þörfin á lánum eins og þessum er í raun og veru, þ.e. að umtalsverð viðskiptatækifæri skuli felast í því, skulum við segja, að nærast á neyð annarra þegar kemur að vöntun á peningum eins og er í þessu tilfelli. Þetta er módel sem byggir í raun á því að hafa fé af fólki sem er í tímabundnum fjárhagslegum erfiðleikum. Þess vegna finnst mér að það megi alveg ræða það hvort taka þurfi harðar á þessu og hvort setja þurfi stífari reglur en við erum með núna. Hins vegar er sú vinna að vissu leyti í gangi, m.a. í dómsmálaráðuneytinu og einnig í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, þannig að það er raunverulega verið að reyna að gera gangskör að því að búa þannig um hnútana að neytendur séu verndaðir eins og kostur er. Það er kannski erfitt að banna fólki að taka lán en það er hægt að banna fólki að bjóða óhóflega íþyngjandi lán til þeirra sem eru í vanda.

Þess vegna þótti mér ástæða til að ræða það og nefna þetta aðeins hér í ræðustól að nefndin er öll sammála um meginmarkmiðin í frumvarpinu og í þessum lögum. Tíminn mun síðan segja okkur hversu mikilvægt það verður að herða betur á þeim skrúfum sem þegar eru hertar í málinu. Ég á von á því að hv. nefnd muni vinna hratt og vel úr þessu máli og koma því fljótt aftur inn í þingsal og klára þá litlu breytingu sem hér er.