150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

merking á vörum frá hernumdum svæðum Palestínu.

241. mál
[17:51]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg):

Herra forseti. Það ætti ekki að þurfa að taka það fram að ég er stuðningsmaður þeirrar tillögu sem við ræðum hér enda einn af flutningsmönnum. Það er gaman að segja frá því að af þeim þingmönnum sem nú eru staddir hér í salnum þá er ég sennilega sá eini sem var svo lánsamur að fá að greiða atkvæði með þingsályktunartillögunni á sínum tíma um viðurkenningu á sjálfstæði Palestínu. Ég man mjög vel eftir því augnabliki og ég man meira að segja hvar ég sat í salnum, það hafði það mikil áhrif á sálartetrið í manni á þeim tíma og nokkrir þingmenn komust við þegar þetta var samþykkt. Í ljósi þeirrar umræðu sem er í alþjóðasamfélaginu í dag, þá tala ég ekki um þær vangaveltur sem hafa verið í gangi að undanförnu, m.a. vestan hafs, um það hvernig menn sjá fyrir sér samskipti Ísraels og Palestínu og sjái í raun fyrir sér að þau samskipti komi Palestínumönnum varla nokkurn skapaðan hlut við, tel ég enn mikilvægara en ella að við sem þjóðþing, þó í litlu sé, ítrekum með þessum hætti afstöðu okkar með þessum meðbræðrum okkar.