150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

skipan nefndar til að meta stöðu og gera tillögur um framtíð Íslands í svæðisbundinni, fjölþjóðlegri samvinnu.

264. mál
[18:27]
Horfa

Flm. (Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir) (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég met það þannig, og það er kannski hluti af því að við þurfum að kortleggja þetta, í ljósi sögunnar, í ljósi þeirrar reynslu sem við höfum af EES-samningnum, þessarar góðu reynslu — þetta var gríðarlega mikilvægt skref, framsýni á sínum tíma — að þegar við erum orðin fullgildir aðilar að innri markaðnum sé það í raun minna skref að verða fullur aðili. Að sjálfsögðu tengjast þessu stór ágreiningsefni í landbúnaði og sjávarútvegi en við sjáum það til að mynda að finnskir bændur, sem voru með einhverjar skrúplur út af aðildinni og inngöngu í Evrópusambandið, sjá nú hag sínum betur borgið innan Evrópusambandsins. Ég tel að tækifæri felist í því fyrir bændur að verða aðilar að Evrópusambandinu.

Varðandi sjávarútveginn liggur það alveg ljóst fyrir að miðað við þær reglur og þau viðmið sem gilda innan Evrópusambandsins munum við hafa yfirráð yfir auðlindum okkar og fara eftir þeirri reglu sem gildir í Evrópusambandinu, þ.e. að við stjórnum því á grunni hlutfallslegs stöðugleika hvað er veitt hér og hverjir veiða og hér hefur enginn veiðireynslu aðrir en Íslendingar á síðustu árum. En þetta gætum við náttúrlega leitt í ljós með því að fullklára aðildarviðræðurnar og klára samninginn og leyfa þjóðinni að velja.

Ég held að það skipti mjög miklu máli. Þjóðin fékk að kjósa um Icesave o.fl., fékk að velja. Þjóðin fékk upplýsingar á sitt borð. Ég held að það sé nákvæmlega það sama með það að klára aðildarviðræðurnar að Evrópusambandinu að þjóðin verði upplýst, að hún sjái hvað er í boði. Það er ekki þannig að allir aðildarsamningar við Evrópusambandið séu bara „copy/paste“, síður en svo.

Og talandi um Grikkland þá er það mjög mikið heimatilbúinn vandi. Við vitum alveg að Grikkir allt að því lugu sig inn í evruna og þar þurfi stjórnkerfið að taka á. Það tekur tíma. Þetta hefur verið erfitt en hefur verið í samvinnu við Evrópusambandið og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. En ég hef trú á því að Grikkir komi sér upp úr kreppunni alveg eins og Írar. Írar er miklu líkari okkur og Lúxemborgarar eru 400.000, Maltverjar eru 400.000 og þar ganga hlutirnir ljómandi vel. Við ættum að líta til smáríkja innan Evrópusambandsins.