150. löggjafarþing — 60. fundur,  18. feb. 2020.

kolefnismerking á kjötvörur og garðyrkjuafurðir til manneldis.

265. mál
[18:50]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég held að það sé einmitt mjög mikilvægt að horfa á alla virðiskeðjuna í þessu og við þurfum í baráttunni í loftslagsmálum að horfa á alla möguleika til að draga úr losun, ekki aðeins þegar kemur að flutningi. Það er ágætt að hafa það í huga að langstærsti hluti losunar í landbúnaðarframleiðslu, og það á ekkert bara við um Ísland, það á við alls staðar í heiminum, er vegna landnotkunar og vatnsnotkunar og svo vissulega orkunotkunar að einhverju marki eftir því hvernig henni er háttað í hverju framleiðslulandi fyrir sig. Bent hefur verið á að flutningurinn einn og sér svona heilt yfir, kolefnisspor vegna flutnings á einstökum vörum, er u.þ.b. 4% af heildarkolefnisspori vörunnar. Þá eru það ekki einungis landbúnaðarvörur heldur fjölmargt annað sem þar er undir. Kolefnisspor þeirra þegar horft er á alla virðiskeðju framleiðslunnar er langtum meira á framleiðslustigi vörunnar en á flutningsstigi hennar. Þess vegna hefur stundum verið of mikið gert úr vægi flutningsins eins og sér.

Það hefur verið bent á það í tilfelli nautakjöts að sennilega er flutningurinn innan við 1% af heildarkolefnislosun á hvert kíló sem framleitt er og flutt. Þess vegna held ég að það sé mikilvægt fyrir okkur hér sem og alls staðar í heiminum þegar við ræðum um aðgerðir gegn loftslagsvánni að við horfum á heildaraðfangakeðjuna og heildarkolefnislosun vegna vörunnar og upplýsum neytendur um þá valkosti sem þeir hafi til þess að draga úr losun en ekki síður að við upplýsum framleiðendurna sjálfa eða gerum þá betur meðvitaða um hvaða aðgerða væri hægt að grípa til.