152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:09]
Horfa

Kristrún Frostadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. formanni fjárlaganefndar fyrir þetta innslag og er ánægð að við séum að fá Bankasýsluna til okkar. Mig langaði einmitt til að koma inn á það sem hér var rætt um þessa litlu fjárfesta sem ég nefndi í ræðu minni, hvernig það slær hv. þm. Bjarkeyju Olsen Gunnarsdóttur, hvort hún telji að það sé í anda þess sem rætt var í ferlinu þegar við fengum Bankasýsluna til okkar á fjárlaganefndarfund, en líka út frá umsögn meiri hlutans, að hleypa þarna að litlum aðilum sem keyptu 10, 30, 50 millj. kr. hlut. Ég spyr hvort hún telji að þetta kasti rýrð á þetta ferli vegna þess að við áttum okkur ekki á því hversu margir þessir aðilar voru. Er þetta í samhengi við hennar skilning á umræddu tilboðsferli, að veita nokkrum aðilum afslátt umfram aðra?