152. löggjafarþing — 60. fundur,  30. mars 2022.

sala á hlut ríkisins í Íslandsbanka, munnleg skýrsla fjármála- og efnahagsráðherra. - Ein umræða.

[18:14]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt, eins og ég sagði áðan í mínu fyrra andsvari, að við ræddum þetta ekki sérstaklega við Bankasýsluna að öðru leyti en því að þar væri fyrst og síðast um að ræða stóra langtímafjárfesta. Það er alveg rétt, Bankasýslan var stofnuð á sínum tíma til að vera í armslengd frá framkvæmdarvaldinu og ég tel í sjálfu sér að það sé gott fyrirkomulag. Þegar við treystum Bankasýslunni fyrir slíku fyrirkomulagi, eins og hér er um að ræða, þá er auðvitað mjög mikilvægt að við upplifum að það sé hægt að treysta. Ég held að það skipti miklu máli. Jú, ég held að við verðum af fullum þunga að ýta á eftir þessum lista, eins og hæstv. ráðherra nefndi hér í dag og ég sagði líka áðan. Þetta skiptir allt miklu máli og ég vona svo sannarlega að það sé ekkert innan kerfisins sem stoppi okkur. Ég sé þá helst fyrir mér að það gæti verið persónuverndarmál eða eitthvað slíkt, en það ætti þó ekki að vera, þetta er opið útboð að einhverju leyti. Við látum alla vega á það reyna og ég tel að það sé svo mikilvægt fyrir traustið á fyrirkomulaginu og við eigum auðvitað eftir að selja meira af bankanum, þó að sannarlega sé talað um að hafa uppi annað fyrirkomulag í framhaldinu, líkara því sem var fyrst, meiri blanda þó af fagfjárfestum og almenningi. Ég tel að til að við höfum einhverja tilfinningu fyrir því að hér sé verið að fara vel með vald þá verðum við að fá botn í þetta mál — allir sem fengu tækifæri, hvernig það bar að og allt það verði að koma upp á borðið. Ég tek undir það, mér finnst það mikilvægt.